Pacino hengdur af gagnrýnendum

Nýjasta kvikmynd Óskarsverðlaunaleikarans Al Pacino, Hangman, fær skelfilegar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda. Þegar þetta er skrifað þá er myndin aðeins með 8 prósent af 100 prósentum mögulegum frá gagnrýnendum kvikmyndavefjarins Rotten Tomatoes.

,,Myndin er óspennandi, heimskuleg og alltof kunnugleg.“ segir einn gagnrýnandi vefjarins. Annar gagnrýnandi á vefnum vill meina að samtölin í myndinni séu ófrumleg og að söguþráðurinn sé ekki upp á marga fiska. Pacino er svo gagnrýndur fyrir frammistöðu sína og þá sérstaklega fyrir hreiminn sem hann er með í myndinni.

Myndin fjallar í stuttu máli um rannsóknarlögreglumann sem setur sig í samband við glæpasérfræðing til þess að elta uppi raðmorðingja sem spilar leikinn Hengimann á sjúkan hátt. Eins og flestir vita þá gengur leikurinn út á það að giska á einn staf í einu og ef giskað er rangt þá bætist við strik sem að lokum myndar mann sem hangir í snöru.

Pacino er um þessar mundir að leika verkalýðsleiðtogann Jimmy Hoffa í The Irishman sem er leikstýrð af Martin Scorsese og skartar einnig leikurum á borð við Robert De Niro og Joe Pesci. Margir vonast eftir því að sú mynd muni koma Pacino aftur á beinu brautina, en leikarinn hefur tekið nokkur feilspor á síðustu árum og má þar sérstaklega nefna myndirnar Jack and Jill og Misconduct.