„Ómótstæðileg“ kókaínmynd kemur á Netflix

Streymisveitan bandaríska, Netflix, tilkynnti á dögunum að hún hefði keypt alþjóðlegan rétt á sýningum heimildarkvikmyndar Theo Love, The Legend of Cocaine Island.

Myndin sem áður hét White Tide: The Legend of Culebra, var frumsýnd á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York fyrr á þessu ári, og heillaði bæði áhorfendur og gagnrýnendur sem sögðu hana eina þá ómótstæðilegustu heimildarmynd sem sést hefði í mörg ár.

The Legend of Cocaine Island fjallar um eiganda smáfyrirtækis og fjölskylduföður, sem finnur goðsagnakenndan týndan kókaín „fjársjóð“, að andvirði tveggja milljóna bandaríkjadala, jafnvirði 220 milljóna íslenskra króna, í karabíska hafinu.

Eftir að hafa misst allt í kreppunni miklu, þá býr hann til skothelda áætlun til að komast yfir kókaínið, og fær til liðs við sig fjölskrúðugan hóp manna. En þar sem enginn þeirra hefur neina reynslu af því að höndla með eiturlyf, lenda þeir í margvíslegum og bráðfyndnum vandræðum.

„Við ætluðum ekki að gera hefðbundna heimildarmynd. Við vildum gera kvikmynd. Stóra og skemmtilega kvikmynd,“ segir Theo Love við Variety. „Ég ólst upp við það að heimildarmyndir þyrftu að vera leiðinlegar og fræðandi, en svo fékk ég mér Netflix áskrift. Netflix hefur breytt landslaginu hvað heimildarkvikmyndir varðar, og við erum mjög spennt yfir að fá að vera með í þeirra vöruframboði.“

„Það að vinna með Netflix og hafa aðgang að 130 milljón áskrifendum, er draumur sem rættist,“ sagði Bryan Storkel framleiðandi.

Myndin mun koma á dagskrá Netflix um allan heim á næsta ári, 2019.