Notenda-tían: Bestu flétturnar!

Hér fengum við sendan inn einn efnisríkan og ýtarlegan; Akkúrat eins og við viljum hafa topplista! Þessi var sendur inn af Jónasi Haukssyni.

.:BESTU PLOT TVISTARNIR:.
(spoilergrein, augljóslega)

Plot tvistar hafa lengi verið í kvikmyndum. Fyrir þá sem vita ekki hvað plot tvist er þá er það þegar eitthvað óvænt kemur fyrir sem áhorfandinn (og oftast persónurnar) bjuggust ekki við. Vandamálið við tvista er að eftir því sem þeir eru þekktari, því líklegra er að maður veit af honum fyrirfram. Það er ein af ástæðunum fyrir því af hverju ég elska þegar mynd kemur með mjög falin hint með tvistinn sem maður tekur ekki eftir við fyrsta áhorf. Verstu tvistarnir eru oftar þeir sem koma upp úr engu og passa engan veginn við neitt sem myndin hefur komið með.

Að koma með lista yfir bestu tvistana er bæði auðvelt og erfitt. Erfitt þar sem það eru til fjölmargir góðir tvistar en sem betur fer eru listarnir oftast einhæfir. Hversu marga góða tvista sér maður í teiknimyndum og söngleikjum? Tvistar eru samt ekkert að verða verri. Mikið af tvistunum á þessum lista eru yngri en 30 ára og síðustu góðu tvistar sem ég sá voru úr Black Swan og Shutter Island (sem var reyndar sem-fyrirsjánlegur, en samt góður).

Hérna er allavega listinn minn.
Ég tek bæði í gildi hversu áhrifamikill tvisturinn hefur verið fyrir kvikmyndir yfir heild og hversu áhrifamikill hann var fyrir mig. Ef þið hafið ekki séð myndina, mæli ég vel með að fara yfir það númer.

Nokkrir góðir sem ég mun ekki tala meira um:

12 Monkeys
Brazil
Chinatown
Donnie Darko
Memento
Planet Of The Apes
Rosemarys Baby
Scream

10: Witness For The Prosecution

Hvað er plottið: Leonard Vole er kærður fyrir morð á ríkri ekkju (sem hann átti að fá mest allan arfinn frá) sem hann segist ekki hafa framið. Hann fær bestu lögfræðinga bæjarins til að verja sig en ekkert gengur. Lögfræðingarnir gruna hins vegar eiginkonuna, Christine.

Hver er tvistinn: Christine játar á endanum morðið. En eftir réttarhöldin segir hún við einn lögfræðinginn að þetta hafi verið allt verið planað hjá henni og Leonard til að fá peninga konunnar. Leonard hefur hinsvegar kynnst annarri konu sem hann vill vera með sem leiðir til þess að eiginkonan drepur hann.

Hvað er gott við hann: Yfir alla myndina var tónninn þannig að myndin virtist einungis vera fyrirsjáanleg gamanmynd (og ég var ekki að kvarta þökk sé handriti/leikstjórn Billy Wilder og frammistöðu Charles Laughton). Myndin virðist ætla hætta eftir að Christine játar morðið en síðan kemur allt þetta yfir mann þegar innan við 5 mínútur eru eftir að myndinni.

9: Les Diaboliques

Hvað er plottið: Tvær konur ákveða að drepa eiginmann annars þeirra, sem heitir Michael. Eftir að hafa náð að drekkja honum (í baðkari) og henda honum í sundlaug skólans sem þau öll vinna hjá, týnist líkið hans. Og eiginkonan, Christina, fer á endanum að missa vitið yfir öllum hintunum sem hún sér um að Michael er ekki dauður í raun.

Hver er tvistinn: Christine tekur eftir hljóðum eina nóttina í húsinu sínu og sér líkið hans Michael í baðkarinu hennar sem hreyfist. Christine deyr samstundis af hjartaáfalli og hin konan, Nicole kemur hinn sem staðfestir að hún og Michael hafa planað þetta saman. Leynilögreglumaður, sem hefur verið að rannsaka málið, sér hinsvegar allt saman.

Hvað er gott við hann: Andrúmsloftið í lokasenunum er rafmagnað og miðað við hvernig Michael kom fram við bæði Christine og Nicole þá býst maður ekki við að þau séu saman í að drepa Christine, sem er sýnd vera góð vinkona Nicole. Og það að þessi mynd sé frá 1955 lætur tvistinn vera ennþá betri. Þetta er elsti tvistinn sem kemst á listann.

8: Oldeuboi

Hvað er plottið: Kóreski viðskiptamaðurinn Oh Dae-su er rændur og er fastur inn í íbúð í fimmtán ár. Eftir að honum er sleppt hittir hann á endanum þann sem rændi hann, Woo-jin, sem segir að hann hefur fimm daga til að komast af því af hverju hann rændi honum

Hver er tvistinn: Eftir að Oh Dae-su uppgötvar að hann var með Woo-jin í skóla og sá hann stunda sifjaspell með systur sinni, sýnir Woo-jin honum myndaalbúm af dóttur Dae-su stækka og uppgötvar að stelpa sem hefur hjálpað honum síðustu daga, sem hann svaf hjá og varð ástfanginn af, er í raun dóttir hans.

Hvað er gott við hann: Þó hann sé ekki sá óútreiknanlegasti, þá er hann með þeim ógeðslegustu sem ég hef séð. Og viðbrögðin se Oh Dae-su sýnir eftir það lætur þetta atriði vera það lang besta í myndinni (með einna töku slagsmálaatriðinu auðvitað). Og lokaatriðið lætur tvistinn þar að auki vera miklu kraftmeiri.

7: Se7en

Hvað er plottið? Tveir lögreglumann rannsaka morð sem tengjast. Öll eru merkt einhverri af dauðsyndunum sjö.

Hver er tvistinn: Maðurinn á bak við morðin, John Doe, er handtekinn og sýnir þeim hvar síðustu tvö fórnarlömbin eru. Hann fer með þá út fyrir borgina til eyðimerkur, vörubíll kemur með kassa, sem inniheldur höfuð konu annars lögreglumannsins, Mills, sem var það að auki ólétt. Fórnarlömbin tvö eru: Doe, sem varð afbrýðissamur af lífi Mills (envy) og verður þess vegna að deyja, og Mills fyrir reiði (wrath). Mills skýtur Doe og missir sjálfur allt við líf sitt.

Hvað er gott við hann: Ófyrirsjánleiki á góðu stigi. John Doe hefur verið að leika sér með lögregluna alla myndina og í endanum, vinnur hann. Þegar tríóið eru komnir í eyðumörkina býst maður ekki við að myndin eigi eftir að enda svona. Ég vissi ekki af þessum tvisti (ólíkt hinni David Fincher myndinni) og eftir því sem ég meira hugsa út í hann, því öruggara tel ég að John Doe er með bestu illmennum sem hafa komið í myndir.

6: The Sting

Hvað er plottið: Eftir að vinnufélagi hans er myrtur af glæpastjóranum Lonnegan, ákveður Johnny Hooker að fá hjálp frá meistaravindlaranum Gondorff til að ræna hálfri milljón dollara frá Lonnegan.

Hver er tvistinn: Þeir ná peningnum af honum en um leið kemur alríkislögreglan og lögreglumaður sem hefur verið að elta Hooker til að handtaka Gondorff. Gondorff uppgötvar að Hooker sveik hann og skýtur hann, og er síðan skotinn strax síðan. Alríkislöglan sendir lögreglumanninn út (með Lonnegan, sem sá allt). Eftir að þeir eru farnir út kemur í ljós að þetta var hluti af áætlun þeirra, Hooker og Gondorff eru á lífi og alríkislögreglan eru með þeim í svindlinu.

Hvað er gott við hann: Í stuttu máli: Strúktúrinn sem myndin hefur. Myndin hefur nokkur atriði með alríkislögrelunni (að tala við lögreglumanninn, tala við Hooker o.s.frv.) og aldrei grunar maður að þeir séu með í plotinu að ræna Lonnegan. Maður hefur hvort sem er engan tíma til að hugsa út í það því það er svo mikið að gerast í myndinni.

5: The Empire Strikes Back

Hvað er plottið: Ef þú veist það ekki, farðu þá af síðunni.

Hver er tvistinn: Darth Vader er Anakin Skywalker, pabbi Luke.

Hvað er gott við hann: Jafnvel þótt uppbyggingin sé ekki stór, þá er þetta án efa frægasti tvist sem gerður hefur verið. Enginn átti von á þessu þegar myndin kom út fyrir 31 ári, en núna vita allir af honum og of hefur verið vísað í hann, bæði sem grín og notaður sem tvist í öðrum sögum. Ein af mínum uppáhalds er úr Toy Story 2

4: Fight Club

Hvað er plottið: Nafnlaus aðalkarakter kynnist Tylor Durden og stofna báðir Fight Club, sem er bæði slagsmálahópur og hryðjuverkahópur sem planar t.d. að eyðileggja kreditkortafyrirtæki.

Hver er tvistinn: Tylor Durden er ekki til. Hann er annar persónuleiki hjá nafnlausa aðalkarakternum. Eins og Durden segir það: “All the ways you wish you could be, that’s me. I look like you wanna look, I fuck like you wanna fuck, I am smart, capable, and most importantly, I am free in all the ways that you are not.”

Hvað er gott við hann: Tylor Durden. Hann er svo eftirminnilegur, skemmtilegur og svo ólíkur hinum að þegar myndin kom fyrst út var þetta talsverður sjokker. Ég elska líka að þessi tvist ýtir við líkingunni að aðalkarakterinn sé í raun krakki í fullorðins manna líkama.
Það er ástæða af hverju Se7en og Fight Club eru oftast taldar vera bestu myndir Fincher: Brad Pitt.

3: The Sixth Sense

Hvað er plottið: Sálfræðingurinn Malcolm Crowe byrjar að sálgreina Cole Sear sem segist sjá dautt fólk, eða drauga, sem vita oft ekki að þau séu dauð. Á meðan er samband Crowe og konunar hans að versna.

Hver er tvistinn: Crower hefur verið draugur allan tímann. Hann var skotinn til bana nokkrum mánuðum áður án þess að hann vissi af því.

Hvað er gott við hann: Eins og Figth Club, þá koma góð hint inn á milli en eins og sú mynd, þá var þetta sjokkerandi þá, en margir vita af þessu núna. The Sixth Sense fékk sex óskarstilnefningar, þar á meðal besta mynd, besta leikkona, besta leikstjórn og handrit fyrir Shyamalan og Haley Joel Osment er með yngri leikurum sem hefur fengið tilnefningu. 11 árum síðar gerði Shyamalan The Last Airbender.

2: The Usual Suspects

Hvað er plottið: Glæpamaðurinn Keyser Söze lætur 5 glæpamenn (án þess að þeir sjái hann) ráðast á bát sem inniheldur mann sem veit hvernig hann lítur úr. Allir deyja úr átökunum nema einn þessum fimm, Roger Kint, (og einn annar) sem er færður til lögreglunnar til að segja söguna á bak við þetta.

Hver er tvistinn: Eftir að lögreglan sannfærir Kint að einn úr hópi Kint, Keaton, var Keyser Söze fær Kint að fara. En fljótlega eftir þá uppgötva þeir að Roger „Verbal“ Kint er í raun Keyser Söze.

Hvað gott við hann: Tveir hlutir. Fyrst er það handrit Christopher McQuarrie. Það er dularfullt, sannfærandi og heldur mysteríunni um her Keyser Söze vel. Hin ástæðan er frammistaða Kevin Spacey. Svipbrigðin hans, fötlunin sem hann leikur og bara staðreyndin að hann gabbaði lögregluna jafn vel og áhorfendurna. Myndin fékk eingöngu tilnefningar fyrir þetta tvennt og átti það svo sannarlega skilið. Besti tvist sem hefur komið í 50 ár.

1: Psycho

Skrifstofustúlkan Marion Crane stelur 40.000 dölum og flýr til mótels. Þeir sem eru þar eru einungis eigandinn Norman Bates, og mamma hans sem heldur sér inn í húsinu sínu og er samkvæmt Bates, afbrigðileg. Marion er myrt í sturtu, af einhverjum óséðum, síðar um nóttina og systir hennar og elskhugi rannsaka hvað gerðist í rauninni þetta kvöld.

Hver er tvistinn: Bæði það að Marion var myrt í miðri myndinni (sem gerðist ekki á þeim tíma) og að móðir Norman Bates hefur verið dauð í mörg ár. Norman Bates þjáist af margföldum persónuleika og á það til í að breytast í Mrs. Bates, sérstaklega ef einhver falleg ung stelpa hittir hann.

Af hverju hefur Psycho besta tvist sem ég hef séð?

Af því að Psycho er skilgreining á tvisti. Allir tvistar sem hafa komið eftir Psycho eiga þeirri mynd mest (ef ekki allt) að þakka. Mysterían er frábær, jafnvel þótt maður viti hvert tvistið er. Peningarnir virðast skipta rosalegu miklu máli, enda gruna systir Marion að Norman, eða mamma hans, drápu Marion til að fá peningana, en í rauninni skipta peningarnir engu máli. Jafnvel þótt sumt fólk kallar tvistinn fyrirsjánlegan, þá var hann allt nema fyrirsjáanlegur þegar hann fyrst kom út.

Psycho er besta hryllingsmynd sem ég hef séð, ekki einungis út af tvistunum og áhrifum þeirra, heldur líka útaf gallalausri leikstjórn Alfred Hitchcock, frábærum frammistöðum, spennunni, mjög góðum skotum, ódauðlegu soundtracki frá Bernard Herrmann, og Norman Bates. Hann er dularfullur, óhugnalegur en maður finnur samt fyrir því hvernig hann hefur orðið.

Hverjir eru uppáhalds tvistanir ykkar? (helst bara nefna myndirnar, ekki fara of mikið út í smáatriði)

Allir topplistar sendast á tommi@kvikmyndir.is.