Comic-Con: Episode IV – A Fan’s Hope er heimildarmynd sem ekki aðeins fagnar því að vera nörd, heldur hvetur til þess óbeint að vera ávallt ungur í anda, og fær kjarnahóp sinn til að óska þess að hann væri staddur á samkomunni, hvort sem hann hefur komið þangað áður eða ekki. Hún bókstaflega talar til þín ef þú ert nörd þó hún hafi nákvæmlega ekkert nýtt að segja. Í staðinn treður hún eiginlega bara ofan í andlitið á manni allt það sem maður veit og hefur margoft heyrt en hún gerir það samt með svo mikilli ánægju að nördahjartað fyllist sterkri vellíðunartilfinningu. Þeir sem tengja sig ekkert við efnið munu samt með öllum líkindum sjá þetta sem athyglisvert innlit inn í skrautlegan menningarheim og alveg örugglega finnast hún nokkuð krúttleg og fullvingjarnleg til að dissa.
Ef æðsta markmið myndarinnar er að blása lífi í minnkandi áherslu ráðstefnunnar á það sem kom þessu öllu af stað – sjálfum myndasögunum að sjálfsögðu – þá vona ég innilega að hún leiði til mikilla breytinga í sölutölum framtíðar. Þegar maður kemst yfir staðreyndina að þetta er umfram allt metnaðarfullt kynningarvídeó til að laða fleiri Comic-Con gestum að (og ég sé ekki betur en að auglýsingin virki á mann!) þá er þetta straightforward og vel uppsett heimildarmynd sem trekkir í mann vonina og rýkur af sjarma og skemmtilegheitum alla leið.
Margir eiga eftir að hlæja og þá mikið, sumir eiga eftir að grenja gleðitárum fyrir hönd samnörda sinna á meðan aðrir munu límast við sögur fólksins á skjánum eins og gamlar konur við sápuóperur. Einstaklingarnir sem fá sviðsljósið eru áhugasamt fólk sem leitast eftir gríðarlegri stefnubreytingu í lífi sínu í gegnum áhugasviðið. Þar á meðal eru tveir listamenn sem vilja koma sér á framfæri með teikningum sínum, kona sem leggur svaka nákvæma vinnu í t.d. Mass Effect-búninga sem hún hannar sjálf og indæll piltur sem ætlar að biðja kærustu sína á Kevin Smith uppistandi. Myndin byggir (grínlaust) upp talsverða spennu í kringum það hvort markmiðunum verði náð og hvernig. Hún er bara í hnotskurn drulluskemmtileg og kætandi. Bæði næstbesta og næstmikilvægasta myndin hans Morgans Spurlock til þessa.
Spurlock, sem vann að myndinni í samstarfi við m.a. Joss Whedon, Stan Lee og Harry Knowles, tekur þá skynsömu ákvörðun að forðast alfarið athyglina á sjálfan sig. Þetta er í fyrsta sinn sem það hefur gerst. Hann kemur aldrei fram, hvorki fyrir framan kameruna né sem þulur. Það er synd að vissu leyti vegna þess að mér hefur alltaf líkað vel við manninn og hans kammó og viðkunnanlega persónuleika, en í þessari mynd snýst allt um nördanna; heim þeirra, ástríðu þeirra og drauma þeirra. Og þar að auki er nóg af öðrum skemmtilegum, frægum persónuleikum sem láta vel heyra í sér. Það drepur pínulítið sjarmann við skjátímann sem Stan Lee fær þegar maður veit að hann – kóngurinn sjálfur (og myndin vissulega sýnir hann óspart sem slíkan) – er einn af framleiðendunum. Er það ekki dálítið að blása í sitt eigið horn?
Það er hægt að bera þetta saman við Trekkies-myndirnar en þær snérust meira um fólkið og lífsstílinn á meðan þessi gengur aðallega út á áhugann og sameininguna. Uppröðunin á sögum ólíka fólksins er stundum eins og línuleg bíómyndafrásögn en það gerir bara lokakaflanna þeim mun ánægjulegri. Fókusinn er samt aldrei á einstaklingnum heldur hobbýinu. Stuttu innskotin af fræga fólkinu skilja mann stundum eftir viljandi meira en það spilast meira bara inn í þá hugsun að það er aldrei dautt móment á þessum 88 mínútum. Aldrei, og þessar mínútur eru pakkaðar af gleðiefni þó pakkinn sé tiltölulega grunnur, eins og mest allt sem Spurlock snertir. Eftir myndina langaði mig samt til að grípa í dýrmætustu bíótitlanna í safninu mínu og þær örfáu myndasögur sem liggja á mínu heimili og halda þeim fast að mér í langa stund. Af hverju? Því það er svo geðveikt lúðalega gaman að vera nörd! Þá er bara næsta skref að bóka ferð til Kaliforníu.
(7/10)
Það er að vísu erfitt að fylgjast með Mass Effect-dýrkuninni án þess að taka það inn í málið hvað þriðji leikurinn breytti miklu. Hann var vissulega ekki kominn út þegar allt þetta myndefni var skotið.