Búið er að vera afskaplega rólegt, og lítið er sumsé að frétta í kvikmyndaheiminum (þ.e.a.s. sem vert er að segja frá), en hér eru nokkrir smámolar sem ættu vonandi að hafa eitthvað að segja.
Tom Hanks er maður hinna mismunandi hlutverka. Á aðeins tveimur árum hefur hann brugðið sér í gervi rannsóknarlöggu (Catch Me If You Can), atvinnumorðingja (Road to Perdition), herramannsþjóf (The Ladykillers), strandglóp á flugvelli (The Terminal) og svo væntanlega mun hann ljá rödd sinni í The Polar Express. En það er ekki allt og sumt, heldur er hann einnig búinn að skrifa undir að ganga með kúrekahatt í vestra sem verður leikstýrður af Lasse Hallström (Chocolat,The Cider House Rules). Mynd þessi ber heitið BOONE’S LICK, og er sögð vera byggð á skáldsögu. Lítið er sagt um plott þessarar myndar en Hanks sagðist hafa lengi viljað færa söguna yfir á hvíta tjaldið, og þetta kemur frá manni sem slær í gegn með nánast öllum sínum myndum, svo þetta hljómar ekki slæmt.
En á öðru sviði kvikmynda þá eru aðstandendur Warner Bros. farnir að fjármagna nýju Superman myndina. Eftir gríðarlegan aðdáendastuðning með Batman Begins hafa þeir ákveðið að vinda sér strax út í framleiðslu myndarinnar. Ekki er alveg 100% staðfest að McG muni leikstýra, þó svo að stúdíóið sé að grátbiðja hann um það. Handritið verður í umsjón manns að nafni Jeffrey Abrams (hann skrifaði litla ‘gæðamynd’ sem hét Armageddon! You’ll get it), og einhverra hluta vegna er hann sífellt beðinn um að endurskrifa það (hmmm… hvers vegna ætli það sé?). En ég er sannfærður um að þetta verði mjög athyglisverð tilraun hjá Hollywood. Það er greinilega ekki nóg að Superman lifi aðeins á myndbandsleigunum heldur þarf hann að vera færður upp í nútímann líka. PS. Ekkert hefur heyrst frá hvaða leikari mun bera rauðu skikkjuna.

