Erfitt að vera stökkbreytt fluga

Það er nógu erfitt að vera mennskur unglingur sem vill falla inn í hópinn og vera eins og allir hinir, en eins og áhorfendur munu sjá í teiknimyndinni Teenage Mutant Ninja Turtles: Mutant Mayhem sem komin er í bíó, þá er það mun erfiðara þegar þú ert „stökkbreytt karate-unglingaskjaldbaka,“ eins og aðalhetjur myndarinnar eru.

En eins og segir í grein á Collider vefsíðunni þá er jafnvel enn erfiðara að falla í hópinn þegar þú ert stökkbreytt fluga eftir að manneskjur ræna föður þínum.

Eftir að hafa verið í mörg ár í felum í holræsunum fyrir heimi mannanna þá ákveða skjaldbökubræður að fara upp á yfirborðið og reyna að ávinna sér ást og aðdáun borgarbúa í New York og verða á sama tíma viðurkenndir sem venjulegir unglingar sem vinna hetjudáðir. Ný ...

Það er staðan sem ofurþrjóturinn Superfly, persónan sem leikarinn og rapparinn Ice Cube leikur í myndinni, er í, og hann er allt annað en ánægður með það. Í raun og veru er Superfly svo brjálaður yfir því hvernig fólk hefur farið með hann að hann er harðákveðinn í að þurrka það allt út og stuðla að því að stökkbreyttir verði allsráðandi lífverur á Jörðinni í stað mannfólksins.

Ekki sérlega slæmur

Ice Cube segir við Collider að Superfly sé þó ekkert sérstaklega slæmur náungi.

Spurður að því hvað hafi komið honum mest á óvart um hvernig hann sá persónuna fyrir sér í fyrstu og hvernig hún leit út endanlega þegar myndin var tilbúin segir Ice Cube að hann hafi fyrst fengið senda þrívíddarmynd af Superfly. „Ég vissi að þetta yrði villt og tryllt. En þegar þú sérð allt púslast saman þá er þetta svalara en þú getur nokkurn tímann ímyndað þér. Þetta er eins og 1.000 á kúl-skalanum. Þú verður að klípa í þig og segja, „Ég er ánægður að vera hluti af einhverju sem er svona stórt og sögulegt.“ Ég vissi líka að þetta yrði frábært með þá Seth Rogen, Jeff Rowe og Kyler Spears í teyminu. Ég hef alltaf haft mikla trú á þríeykinu og þeir valda svo sannarlega ekki vonbrigðum hér.“

Öðruvísi upptökur

Raddupptaka kvikmyndarinnar var öðruvísi en venjan er fyrir teiknimyndir. Þegar Ice Cube er spurður út í það segir hann að leikarar hafi verið saman í herbergi. „Ég held að það sé mikilvægt að reyna að fá eins marga leikara saman í herbergi og skynsamlegt er. Ég lék margar af mínum senum með skjaldbökuleikurunum, þannig að þeir voru með mér í hljóðverinu. Þú bæði heyrir það og finnur það þegar þú sérð myndina. Þegar þú horfir á aðrar teiknimyndir þá geturðu stundum heyrt að raddirnar eru allar teknar upp út af fyrir sig, en hér finnurðu stemmninguna við að hafa okkur alla saman í herbergi.“

Kann að klæða sig

Um Superfly segir Ice Cube að hann sé viðkvæmur náungi þó að hann sé erkiþorpari. „Hann vill vera samþykktur. Hann veit að hann er ekki sá sætasti, en hann klæðir sig töff. Þú veist? Hann kann að klæða sig og vill fá samþykki annarra, rétt eins og ég og þú, af venjulegu fólki sem er á leið á Happy Hour á barnum og hafa gaman. Ég myndi vilja setjast niður og fá mér sykurskál og bjór með Superfly hvenær sem er.“

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við leikarana sem leika skjaldbökurnar, þá Nicolas Cantu, Micah Abbey, Shamon Brown Jr. og Brady Noon: