Segir Barbie bestu kvikmynd ársins

Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Jóna Gréta Hilmarsdóttir, fer fögrum orðum um nýju Barbie myndina í dómi í blaðinu í dag og kallar hana meðal annars feminískt meistaraverk.

„Frá því að undirrituð frétti að Greta Gerwig myndi leikstýra kvikmyndinni um Barbie varð hún spennt fyrir myndinni af því hún vissi að Gerwig myndi alltaf skoða Barbiedúkkuna í pólitísku samhengi. Fyrrum myndir Gerwig, Lady Bird (2017) og Little Women (2019), fjalla báðar um sterkar konur og því var Barbie aldrei að fara vera neitt annað en femínískt meistaraverk,“ segir Jóna.

Allir dagar dásamlegir

Eins og segir í dómi hennar eru allir dagar hjá Barbie dásamlegir í Barbie-landi en dagurinn hjá Ken verður bara dásamlegur ef Barbie brosir til hans því í Barbie-landi er Ken aðeins aukahlutur í lífi Barbie.

Í Barbie-landi ríkir mæðraveldi, konurnar ráða ríkjum og karlarnir eru aðeins viðföng þeirra. Jóna segir að þetta hafi reitt suma karlkyns gagnrýnendur til reiði og þeir kallað kvikmyndina karlhatandi femínískt drasl. „Undirrituð veltir fyrir sér þessum neikvæðu viðbrögðum og vill meina að myndin sé ekki karlhatandi heldur sniðug leið til að gera karlmönnum kleift að setja sig í spor kvenna. Í  myndinni bilar Barbie og neyðist til að heimsækja hina raunverulegu veröld. Ken fær að koma með og saman uppgötva þau að raunheimurinn er allt öðruvísi en í Barbie-landi af því þar er ríkjandi feðraveldi. Barbie upplifir það í fyrsta skipti hvernig það er að vera óörugg í eigin skinni, en Ken hefur aldrei verið jafn hamingjusamur.

Ótrúlega fyndin og falleg

Í niðurlagi umfjöllunar sinnar segir gagnrýnandi Morgunblaðsins að leikstjóranum Gretu Gerwig hafi tekist að gera ótrúlega fyndna og fallega kvikmynd um Barbie-dúkku og um leið varpa fram erfiðum spurningum um femínisma eins og hvort ýktur kvenleiki og femínismi vinni í þágu hvors annars eða á móti hvort öðru. „Barbie er án efa ein besta kvikmynd ársins. Undirrituð hvetur fólk til þess að sjá kvikmyndina, ekki af því hún er femínísk heldur af því að fyndnari mynd hefur hún ekki séð lengi.“

Lestu umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.