ABBA fjörið heldur áfram

Í stuttu máli er „Mamma Mia: Here We Go Again“ hreint frábært framhald hinnar geysivinsælu „Mamma Mia!“ (2008) og þrátt fyrir að vera frekar ljúfsár er þetta besta „feel-good“ myndin á árinu hingað til.

Sophie (Amanda Seyfried) hefur lappað upp á hótelið sem Donna (Meryl Streep) kom á laggirnar á hinni undurfögru grísku eyju Kalokairi og til stendur veglegt teiti því til fögnuðar. Á sama tíma er spólað til baka og fylgst með þegar Donna á yngri árum (Lily James) lagði land undir fót og nam staðar í eyjaparadísinni og hvernig hún kynntist þremenningunum Harry (Hugh Skinner/Colin Firth), Bill (Josh Dylan/Stellan Skarsgard) og Sam (Jeremy Irvine/Pierce Brosnan).

Í raun er mesta furða að það skyldi taka tíu ár að koma með framhald að hinni geysivinsælu „Mamma Mia“ en söngleikurinn er enn í gangi 19 árum eftir frumsýningu og ABBA æðið virðist engan endi ætla að taka.

„Mamma Mia: Here We Go Again“ tekur enga stóra sénsa með formúluna sem virkaði svo vel í fyrra skiptið og forsaga Donnu býður bæði upp á mikið grín og talsvert drama undir fögrum ballöðum sem og eiturhressum slögurum frá sænsku stórsveitinni. Það er aðeins meira kafað í gullkistuna þar sem flestir smellirnir komu fram í fyrra skiptið en lagavalið er stórgott og hæfir vel sögunni. Textar eru lítillega staðfærðir á stöku stöðum en það breytir litlu og hreint ótrúlegt hve mikið líf er í þessum lögum og er það ABBA til óendanlegs hróss. Þetta eru innihaldsrík lög sem flakka á milli hreinskærrar lífsgleði og grákalds veruleika og þau hafa sannarlega kveikt í sköpunargleði margra og mjög lífseigur söngleikur ásamt tveimur myndum er því til sönnunar.

Þeir sem koma til leiks með forverann í fersku minni koma auga á ákveðin ósamræmi en þessar myndir verða seint taldar til mikilla verka í handritadeildinni. Sögurnar eru frekar grunnar og einfaldar en engu að síður mjög mannlegar og skemmtilegar og auðveldlega hægt að horfa fram hjá þessum smáatriðum.

Það var sterkur leikur að fá alla þungavigtarmennina aftur til leiks og Brosnan (enn með sína „englarödd“), Firth og Skarsgard standa fyrir sínu sem og yngri útgáfurnar af þeim. Seyfried og Dominic Cooper eru enn frábær í sínum hlutverkum og svo má ekki gleyma Julie Walters og Christine Baranski sem vinkonum Donnu en þær eru enn jafn ferskar og skemmtilegar. Gömlu nýliðarnir hér; Cher og Andy Garcia eru góð viðbót í þennan stjörnufans. Senuþjófurinn er þó Lily James sem hin unga Donna. Hún hreinlega ljómar í hlutverki sínu og syngur eins og engill líkt og Streep gerði í fyrri myndinni.

En þrátt fyrir alla lífsgleðina og glensið er talsverður tregi sem umlykur myndina. Án þess að spilla neinu þá er vottur af kalda veruleikanum sem dregur úr ánægjunni og sannar gildi þess að lifa í núinu, hlúa vel að sínum kærustu og vera trúr sjálfum sér. Ljúfsári hlutinn hreyfir vafalítið við flestum sem hafa upplifað gleði og sorg í lífinu og búast má við að þerra nokkur tár áður en yfir lýkur. En líkt og forverinn gerði með stakri prýði þá er öllu slúttað með svaka „tjútti“ og allir (vona ég!) halda út með bros á vör og láta sig dreyma um að búa í eyjaparadís syngjandi eintóm ABBA lög.