Vígtenntur Cage lofaður sem Drakúla

Vígtenntur Nicolas Cage fær góða dóma í breska blaðinu The Daily Telegraph fyrir túlkun sína á blóðsugunni Drakúla greifa í kvikmyndinni Renfield sem kom í bíó í dag föstudaginn 14. apríl.

Gagnrýnandi blaðsins segir að Cage standi upp úr og kjamsi af áfergju á hverju orði sem hann lætur út úr sér líkt og það væri innmatur úr manni. „Þú gefur mér bara drasl að borða!“ kvartar hann við skósvein sinn Renfield sem leikinn er af Nicolas Hoult, þegar hann færir honum hverja manneskjuna á fætur annarri til að sjúga blóðið úr.

Renfield (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.4
Rotten tomatoes einkunn 58%

Renfield ákveður að hætta í starfinu sem hann hefur gegnt um margar aldir sem skósveinn Drakúla greifa, og byrja nýtt líf í nútímanum í New Orleans í Bandaríkjunum. Hann verður ástfanginn af viljasterkri og ágengri löggu sem heitir Rebecca Quincy....

Leikstjóri myndarinnar er Chris McKay.

Myndin segir frá Robert Montague Renfield, sem Nicolas Hoult leikur. Hann er skósveinn, þjónn og almennur reddari Drakúla greifa og hefur vott af eiginleikum og blóðþorsta meistara síns.

Renfield þarf að finna nýjan felustað fyrir þá félaga svo þeir geti dulist yfirvöldum. Renfield er ungur en sérkennilegur í háttum – hann er, auðvitað, meira en aldargamall en býr yfir eilífri æsku – og flytur inn í íbúð í New Orleans í Bandaríkjunum og finnur kjallara í yfirgefnum spítala fyrir Drakúla að fela sig í.

Hryllilegur bruni

Skuggaprinsinn er illilega brunninn eftir dularfullt atvik en það er ekkert sem ferskt mannsblóð getur ekki lagað. Það verður því höfuðverkur Renfield að útvega þann lífsins elexír fyrir Drakúla.

Það er einmitt ástæðan fyrir því að hinn hundtryggi þjónn fer að sækja stuðningsfundi meðvirkra til að sigta út aðila og færa þá Drakúla.

Á þessum fundum áttar Renfield sig á að hann á í meðvirku sambandi við Drakúla. Með þær hugmyndir í farateskinu ákveður hann að reyna að slíta sambandi þeirra.

En þar til hann tekur af skarið er hann fastur í að færa meistaranum nýja og nýja skrokka og einnig lendir hann í bardaga við dópsala og endar með að afhöfða nokkra þeirra.

Stuggar við glæpagengi

Í framhaldinu lendir hann upp á kant við ungan glæpón að nafni Teddy Lobo, sem er hluti af aðal glæpafjölskyldu borgarinnar. Hann hefur tangarhald á lögreglunni m.a. og hikar ekki við að gera ungri lögreglukonu fyrirsát, sem Awkwafina leikur. Hún reynir að handtaka hann og Renfield er í einu vettvangi orðinn bandamaður hennar og skotinn í henni, á sama tíma og hann eignast Lobo fjölskylduna sem óvini.

Þegar Renfield lætur loks til skarar skríða gagnvart Drakúla gengur vampíran til liðs við glæpagengið og leiðtoga þeirra; móður Teddy, sem Shohreh Aghdashloo leikur, en hún býr yfir ýmsum pyntingartækjum í fylgsni sínu.

Til að vita hvernig allt endar er nauðsynlegt að skella sér í bíó að sjá myndina.