Hugljúf og einlæg mynd

Í fjölskyldumyndinni Hetjudáðir múmínpabba – Ævintýri ungs múmínálfs sem kemur í bíó á morgun föstudag, segir frá því þegar Múmínsnáðinn er stunginn af vespu og verður að vera rúmliggjandi ákveður Múmínpabbi að reyna að hressa hann aðeins við með því að segja sögur af ævintýralegum æskuárum sínum en barnæska hans var engan veginn venjuleg, raunar mjög framandi því sem nútímakynslóðir þekkja í dag.

Strauk af munaðarleysingjahæli

Múmínpabbi segir frá erfiðri barnæsku sinni, hvernig hann strauk af munaðarleysingjahæli og því þegar hann hitti uppfinningamanninn Friðriksson.

Hann greinir frá svaðilför í bát í fárviðri og stórsjó og ævintýrum sínum í ríki einræðiskonungs.

Stofnar nýlendu

Múmínpabbi stofnar líka nýlendu, vingast við draug og svo – eina óveðursnótt – bjargar hann Múmínmömmu úr sjónum. Og við þekkjum það sem á eftir kom.

Ævintýri ungs Múmínálfs er hugljúf og einlæg mynd sem gerist í heimi ímyndunaraflsins – Múmíndal.

Tilvalin fjölskyldumynd

Múmínpabbi rifjar upp barnæskuna á ljóslifandi hátt og segir frá ævintýrum sem heilla alla sem varðveitt hafa barnið í hjarta sínu. Tilvalin fjölskyldumynd.

Í þessari mynd rifjum við, sem þekkjum Múmínálfana, upp kynnin af Múmínmömmu, Múmínpabba, Múmínsnáðanum og öllum hinum stórkostlegu persónunum sem Tove Jansson færði okkur. Þarna eru Snorkstelpan, Snorkurinn, Snabbi, Mía litla, Snúður, Hemúllinn, Morrinn, Hattífattarnir og margir fleiri.

Aðalhlutverk: Karl Örvarsson, Laddi, Arnór Björnsson, Árni Beinteinn, Hjalti Rúnar Jónsson, Andrea Ösp Karlsdóttir, Einar Örn Einarsson og Ylfa Marín Haraldsdóttir

Handrit: Ira Carpelan

Leikstjórn: Ira Carpelan.

Sigurður Árni Ólason leikstýrði á íslensku