Meistaraverk um mat og streitustig

Annað slagið heyrist því fleygt að allar manneskjur þurfi að gegna þjónustustarfi á einhverjum tímapunkti ævi sinnar. Þannig öðlist fólk skilning á fleiri lögum samfélagsins og verði á endanum betri manneskjur. Það kann vel að vera að slík kaffistofuspeki sé sönn á Íslandi, en hún er vafalítið enn sannari í lagskiptu samfélagi eins og Liverpool, sem er sögusvið spennumyndarinnar Boiling Point.

Þarna er þverskurður af samfélaginu samankominn inni á tvöhundruð fermetrum. Mynd/Skjáskot
Boiling Point (2021)

Boiling Point gerist á flottum veitingastað og er öll unnin í einni töku. Það er merkilegt tæknilegt afrek út af fyrir sig, en verður margfalt merkilegra þegar áhorfandi áttar sig á því að hvergi er afsláttur gefinn á leiktilþrifum, handriti eða erindi.

Aðalpersónan er yfirkokkur á vinsælum veitingastað á föstudegi fyrir jól. Hann er að ganga í gegnum skilnað, staddur í miðju áfallinu, nýbúinn að fá íbúð afhenta og er að reyna að koma lífi sínu í jafnvægi á meðan hann heldur öllu gangandi sem verkefnastjóri og ábyrgðarmaður yfir fjölskrúðugu teymi.

Frábært sögusvið

Veitingastaður er frábært sögusvið. Goggunarröðin og hlutverkin eru til staðar og inn í þetta skapalón stíga sannfærandi persónur. Þær eru kynntar vel til sögunnar og vel unnið með bakgrunn og ásetning hvers og eins. Framvindan er þétt og grípandi. Á fimmtándu mínútu var undirrituð búin að draga hnén upp að höku af stressi fyrir hönd allra sem birtust á skjánum.

Óbærilegi keppinauturinn er eftirminnilegur hápunktur, stjörnukokkurinn sem minnir á Hábein heppna í slag við aðalpersónuna Andrés önd. Þarna er þverskurður af samfélaginu samankominn inni á tvöhundruð fermetrum: Borðið með amerísku skvísunum, áhrifavaldaborðið, rasistarnir og ástfangna parið.

Uppgefinn eftir áhorf

Eftir áhorfið verður maður svolítið uppgefinn, eins og maður hafi verið á heilli vakt sem soðin var niður í tvær klukkustundir. Sagan situr í manni. Þeir sem hafa unnið á veitingastað munu tengja afskaplega vel við efnið enda er hér með afbrigðum raunsönn endurspeglun á slíku samfélagi.

Niðurstaða: Það er sjaldan sem viðlíka tækifæri gefst til að reka á eftir fólki á kvikmyndasýningu, en hér er skylduáhorf fyrir alla unnendur góðra kvikmynda. Svo skemmir maturinn ekki fyrir, þið munið verða svöng, ógeðslega svöng. Ég mæli með að bóka borð á uppáhaldsveitingastaðnum beint eftir bíó.

Nína Richter

Gagnrýnin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Millifyrirsagnir eru frá Kvikmyndir.is