Erlingur endurgerir verðlaunamynd sína í Bandaríkjunum

Íslenski kvikmyndagerðarmaðurinn Erlingur Óttar Thoroddsen mun skrifa og leikstýra bandarískri endurgerð myndar sinnar Rökkur (e. RIFT) sem kom út 2017. Kvikmyndagerðarmaðurinn lauk tökum nýverið á kvikmyndinni The Piper fyrir Millennium Media með Charlotte Hope og Julian Sands í aðalhlutverkum.

Um er þar að ræða myrka útgáfu af sögunni um rottufangarann í Hamel (e. Pied Piper), sem er á meðal þekktustu þjóðsagna í Þýskalandi. Nafnið Rottufangarinn er kennt við aðalpersónuna; óþekktan flautuleikara sem birtist í borginni Hamel á meðan gríðarleg rottuplága stendur yfir í borginni. Flautuleikarinn virðist eiga töfraflautu sem hann býst til að nota til að losa borgarbúa við rotturnar gegn gjaldi – en þegar borgarbúar neita svo að greiða honum endar það með skelfilegum afleiðingum fyrir þá alla.

Víða verðlaunuð

Framleiðandi Rift er Óskarsverðlaunahafinn Dustin Lance Black (Milk, J. Edgar, When We Rise) en hann vann Óskarsverðlaun fyrir handritið að kvikmyndinni Milk árið 2009 og skrifaði síðast myndina Rustin sem Barack og Michelle Obama framleiða fyrir Netflix. Meðal annarra framleiðanda eru J. Todd Harris og Marc Marcum (The Trial of the Chicago 7, The Kids Are Alright) ásamt XYZ og Wayward Entertainment.

Rökkur var frumsýnd árið 2017 og segir frá tveimur fyrrum elskhugum. Nokkrum mánuðum eftir að þeir hættu saman, vaknar Gunnar upp við skringilegt símtal frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari. Einar segir að hann fái það stundum á tilfinninguna að hann sé ekki einn þegar hann er staddur í Rökkri, fjölskyldusumarbústaðnum sem stendur undir Snæfellsjökli. Gunnar keyrir af stað upp á nesið til þess að sjá um hvað málið snýst, og kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist. Með aðalhlutverk fóru Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson.

Myndin hlaut t.a.m. verðlaun fyrir listrænt afrek (Artistic Achievement) á Outfest-kvikmyndahátíðinni í Los Angeles í júlí og fyrstu verðlaun fyrir kvikmyndatökuna á Óháðu kvikmyndahátíðinni í San Francisco.