Zorro í nútíma útfærslu

Kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Rodriguez mun framleiða endurræsingu um hina fornfrægu hetju alþýðunnar, Zorro. Verkefnið vinnur hann í samstarfi við Rebeccu Rodriguez, sem kemur til með að leikstýra, og hina góðkunnu Sofiu Vergara. Saman vinna systkinin Rodriguez að handritinu og er talið líklegt að um sjónvarpsseríu sé að ræða, þó það hafi ekki fengist staðfest.

Fréttamiðillinn Deadline greindi fyrst frá þessu og segir þar að Rodriguez-teymið stefnir á að stílfæra sögu Zorros í nútímann og með breyttu sniði.

Endurræsingin mun segja frá listakonu að nafni Sola Dominguez, sem tekur málin í sínar hendur og berst gegn óréttlæti samfélagsins. Hún sækir innblástur í goðsögnina Zorro með gervi sínu og málstað, en óvinum fer hratt fjölgandi með hverri spillingunni sem Sola afhjúpar. Þá er henni að mæta til að sýna heiminum að goðsögn Zorros er ekki öll – og komin til að vera.

Rebecca Rodriguez hefur að baki rúma áratuga reynslu í sjónvarpsþáttagerð og handritsskrifum. Leikstýrði hún meðal annars þætti úr sjónvarpsseríunni From Dusk till Dawn og hefur einnig komið að þáttum á borð við The Orville, The Chi og Snowpiercer.

Aftur til fortíðar

Zorro fyrst kom fram á sjónarsviðið árið 1919. Þá skrifaði rithöfundurinn Johnston McCulley um Zorro í tímaritið All-Story Weekly. Síðan þá hefur Zorro lifað góðu lífi í bókmenntum og bíómyndum, sem nú eru tólf talsins.

Segja má að Zorro sé Robert Rodriguez afar hugleikin persóna. Þegar framleiðsla hófst á hinni stórvinsælu The Mask of Zorro (1998) var Rodriguez upphaflega ráðinn í leikstjórasætið. Hann tók jafnvel sérstaklega upp á því að ráða Antonio Banderas í aðalhlutverkið sem skaut honum hraðar upp stjörnuhimininn. Þeim félögum hafði áður samið svo fínt með hasarmyndinni Desperado.

Áður en tökur hófust steig Rodriguez frá vegna ágreinings við kvikmyndaverið um framleiðslukostnaðinn. Þá tók breski leikstjórinn Martin Campbell (Edge of Darkness, GoldenEye) við keflinu og leikstýrði hann einnig framhaldsmyndinni, The Legend of Zorro, sjö árum síðar.

Ekki er enn búið að gefa upp hvaða leikkona fer með titilhlutverkið í nýju útfærslunni.