Líkir útliti sínu í Cats við refi að stunda samfarir

Kvikmyndaaðlögunin af söng­leikn­um Cats virðist falla í grýtt­an jarðveg hvert sem litið er. Umtalið í kringum myndina hefur magnast töluvert undanfarna fjóra mánuði og verið undirstaða óteljandi brandara og nokkurra hneykslismála á bak við tjöldin frá því að stiklurnar voru fyrst gefnar út. Fyrir nokkrum vikum var skammarstimpillinn endanlega innsiglaður þegar myndin vann til fimm Razzie-verðlauna, þar á meðal fyrir verstu mynd og verstu leikstjórn (Tom Hooper).

Cats er stjörnuprýdd kvikmynd og á meðal helstu leikara er hin virta Judi Dench, sem sagði nýlega í (forsíðu)viðtali við breska tímaritið Vogue að hún hafi enn ekki horft á lokaútkomuna. Þó var leikkonan fyrir miklum vonbrigðum þegar hún sá hvernig persóna hennar, Old Deuteronomy, endaði á því að líta út í afrakstrinum.

Sjá einnig: Endaþarmsop fjarlægð úr Cats: „Við þurfum öll á þessu að halda núna“

Kvikmyndin fór í gegnum ýmsar breytingar á meðan eftirvinnslu stóð. Eftir frumsýningu fyrstu stiklunnar og eitruðu viðbrögð veraldarvefsins yfir hönnun og útliti, reyndu aðstandendur að gera fjölmargar breytingar á mettíma. Dæmi um útlitsbreytingar persónu Dench má sjá að neðan en leikkonan tekur fram í viðtalinu að hún vonaðist til þess að líta meira út eins og „vitur skepna“ í myndinni en ekki „einhver illa farinn og sóðalegur gamall köttur.“

Dench segir:

„Ég lít út eins og stór, appelsínugulur hrotti. Hvað er málið með það?“

Leikkonan furðar sig á kápunni sem persóna hennar klæðist og hvað henni þykir ljótt að kápan skuli vera í sama lit og loðfeldur Deuteronomy. Þá bætir hún við:

„Þessi kápa… Almáttugur. Mætti halda að það séu fimm refir að ríða á bakinu mínu.“

Sjá einnig: Cats sögð vera verk djöfulsins