Seríur í sérflokki fyrir sóttkvína: „Bestu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið“

„Við lifum á tímum fordæmalauss sjónvarpsgláps þar sem tugir frábærra þáttaraða eftir fremsta kvikmyndagerðarfólk heims eru aðeins einum fjarstýringarsmelli frá okkur.

Á þessum orðum hefst upptalning á sjónvarpsseríum sem þykja hentugar á fordæmalausum tímum, til að mynda fyrir sóttkvína, að mati Davíðs Roach Gunnarssonar á menningarvef RÚV. Í samantektinni er að finna þar að finna fjórar þrusugóðar þáttaraðir þóttu fordæmalausar á sínum tíma og ruddu brautina á einn hátt eða annan. Lengri úttekt Davíðs má finna á vef RÚV, en höfundur hefur talninguna á mafíósaklassíkinni frá HBO.

The Sopranos
„Upphaf núverandi gullaldar má rekja til bandarísku kapalstöðvarinnar HBO og sjónvarpsþáttanna um kvíðna mafíósann og góðlega hrottann Tony Soprano sem hófu göngu sína 1999. Þar var tekinn nútímalega snúningur á gömlum geira þegar vænni skvettu af geðrænum kvillum og karlmennskukrísu þúsaldarinnar var sprautað inn í gamlar mafíósaklisjur. James Gandolfini í hlutverki Tony Sopranos tókst að sveiflast milli sjarmerandi töffara, lúsers með pabbakomplexa og siðblinds ofbeldishrotta á örfáum sekúndum, og persónan er ennþá fyrirmyndin að HBO-andhetjunni sem nú er orðin klisja,“
segir Davíð meðal annars í samantektinni.


The Office
„Annað sem Office gerðu var að þeir opnuðu nýja grínvídd; mölvuðu fjórða vegginn svo harkalega að hann hefur varla verið endurbyggður síðan. Svokallaðar feik-heimildarmyndir (mockumontary) höfðu vissulega verið gerðar áður, til dæmis Spinal Tap og Best in Show, en áhrif þessarar frásagnartækni áttu eftir að umbreyta því hvernig grínþættir voru skrifaðir. Skyndilega var á stuttum tíma hægt að byggja upp mjög sterka aukakarektara með því að leyfa þeim að tjá hvernig þeim raunverulega leið beint og milliliðalaust í myndavélina. Breska útgáfan eru aðeins tvær sex þátta seríur en það er líka skammlaust hægt að mæla með bandarísku útgáfunni sem er lengri og algjörlega frábær.“


The Wire
„The Wire eru bestu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið. Það er ekki til umræðu hér. Það sem á yfirborðinu virðist vera lögguþáttur sem gerist í Baltimore fjallar um svo miklu miklu meira; deyjandi iðnaðarborgir ameríku, ónýtt menntakerfi, löngu tapað stríð gegn eiturlyfjum, tap einstaklingsins fyrir kerfinu, gnístandi eyðileggingarhjól kapítalismans, eymd sem erfist milli kynslóða og allan þann mannlega harmleik sem hag- og stjórnkerfi einnar borgar getur á borð borið. En þrátt fyrir þetta hlaðborð af boðskap og greiningu er aldrei sápukassi í augsýn, og kjánahrollur og klisjur víðs fjarri.“


Twin Peaks
„Í Twin Peaks blandar David Lynch saman rökkurlegri spæjarasögu við taktskrítinn húmor, melódramatíska sápuóperu, yfirnáttúruleg hryllingsminni og bandaríska smábæjarrómantík á hátt sem ekki hefur verið leikinn eftir síðan. Hann blætisgerir kaffi og kökusneiðar og uglur verða aldrei samar aftur.“