Netflix fjarlægir alvöru lestarslys úr Bird Box

Netflix hefur endurskoðað fyrri ákvörðun sína og fjarlægt myndefni af raunverulegu lestarslysi, sem birt var í myndinni Bird Box, sem er með Söndru Bullock í aðalhlutverkinu.

Í Bird Box þurfti fólk að hylja augun utandyra, ef ekki myndi það fremja sjálfsmorð samstundis.

Notað var myndefni af lestarslysi sem varð hjá bænum Lac-Mégantic í Kanada árið 2013, þar sem 47 manns fórust. Atriðið var notað til að túlka heim sem væri að leysast upp í öngþveiti og óreiðu. BBC segir frá því að Netflix hafi staðfest notkun á myndefninu, en hafi upphaflega ekki ætlað að fjarlægja það.

Eftir margra vikna deilur hefur Netflix nú samþykkt að fjarlæga myndefnið.

„Okkur þykir miður að hafa valdið fólkinu í Lac-Mégantic sársauka,“ segir í yfirlýsingu frá Netflix, án þess að útskýra nánar afhverju fyrirtækið hefur skipt um skoðun, samkvæmt BBC.

Í janúar samþykkti þingið í Kanada tillögu þar sem farið er fram á það við Netflix að fyrirtækið greiði íbúum Lac-Mégantic skaðabætur fyrir að hafa notað myndir af slysinu bæði í Bird Box sem og í framtíðarþættinum Travelers. Þá samþykkti þingið að krefjast þess á ný að Netflix fjarlægði efnið.

Núverandi bæjarstjóri bæjarins Julie Morin gagnrýndi ákvörðun Netflix að nota myndefnið. „Okkur finnst þetta vanvirðing,“ sagði Morin við kanadíska blaðamenn. „Það er nógu erfitt fyrir íbúana að sjá þessar myndir í fréttunum. Ímyndið ykkur að nota þær í skálduðum heimi, eins og þær hafi verið búnar til.“