Sinbad þríleikur á Blu

Nú geta margir komist í tengsl við innra barnið í sér en breska útgáfufyrirtækið Indicator gefur út flottan pakka á Blu-ray af „Sinbad“ þríleik Ray Harryhausen. Brellusérfræðingurinn sálugi varð heimsþekktur á svipstundu þegar „The 7th Voyage of Sinbad“ (1958) kom út en þar sá hann alfarið um sjónbrellur í fyrsta skiptið.

Myndirnar þrjár eru „The 7th Voyage of Sinbad“, „The Golden Voyage of Sinbad“ (1973) og „Sinbad and the Eye of the Tiger“ (1977) og lofað er blússandi háskerpu ásamt heilmiklu af aukaefni fyrir áhugasama; þ.á.m. nýleg viðtöl við Jane Seymor og gyðjuna Caroline Munro, 80 blaðsíðna bók með ritgerðum tengdum myndunum og miklu fleira.

Þetta eru klassískar ævintýramyndir sem hafa staðist tímans tönn en vissulega eru brellurnar í þeim frumstæðar miðað við það sem áhorfendur sjá í dag. Pakkinn verður gefinn út í takmörkuðu upplagi (6.000 eintök) en slíkt er orðin viðtekin venja nú þegar langflestir notendur hala niður myndefni; löglega eða ólöglega. Útgáfudagur er 26. júní næstkomandi.