Bruce Lee á Blu…aftur og aftur

Dýrt spaug að vilja allt með Bruce Lee! Það stefnir í að kappinn verði sá mest endurútgefni í háskerpubransanum og hörðustu fylgjendurnir þurfa að punga út dágóðum upphæðum ef þeir vilja tæmandi safn. Herlegheitin byrjuðu árið 2012 þegar Hong Kong Legends gáfu út verulega flotta DVD pakka af fjórum af myndum Bruce („The Big Boss“, „Fist of Fury“, „Way of the Dragon“ og „Game of Death“) og allir sem eitthvað álit höfðu á meistaranum keyptu þetta. Enda flott efni.

  

Blu-ray aldan tók svo við og Shout Factory í Bandaríkjunum gaf út stóran pakka árið 2013 sem innihélt þessar sömu myndir nema í háskerpu. Sá pakki þótti samt ekki nægilega góður eftir allt saman þar sem myndgæðin þóttu ekki nógu tær og hljóðgæðin voru ekki upp á marga fiska. Samt var þetta skref upp á við miðað við DVD og því seldist pakkinn ágætlega. Svo var einstaklega mikið lagt í umbúðirnar og það hugnast söfnurum ekki síður.

Nema hvað að svo lagfærðu þeir hjá Shout myndgæðin lítillega og stórbættu hljóðið í næsta pakkanum sem var titlaður „The Bruce Lee Premiere Collection“ og kom hann út seint árið 2014.

Svo kemur á markaðinn breskt fyrirtæki sem kallar sig Mediumrare og þeir toppuðu Shout Factory hvað myndgæði varðar með því að veita titlunum svo kallaða 2K myndræna yfirhalningu og stórauka úrvalið af aukaefni. Þeir bættu einnig um betur með flottum umbúðum sem m.a. innihéldu upprunanlegu kápurnar á bakhliðinni. Þessar fjórar Bruce myndir komu út seint árið 2015.

Ekki búið enn!

Árið 2016 var annasamt ár beggja vegna Atlantshafsins. Shout Factory gaf út í desember síðastliðnum „The Chinese Connection“ og „Fists of Fury“ í viðhafnarútgáfum en nú með 4K myndrænni yfirhalningu en hún veitir enn tærari upplausn en 2K yfirhalningin frá Mediumrare. Svo kunna þeir sitt fag en þessir titlar eru þeir upprunanlegu í staðinn fyrir „Fist of Fury“ (hét upprunalega „The Chinese Connection“) og „The Big Boss“ (hét upprunalega „Fists of Fury“) og nýju kápurnar eru sannarlega flottar. Svo í maí næstkomandi eru væntanlegar „Return of the Dragon“ (sem hét upprunalega „Way of the Dragon“) og „Game of Death“ sem á víst að luma á einhverju svaka fínu og nýju aukaefni.

   

Þeir hjá Mediumrare vildu ekki gefa sitt eftir en í í nóvember í fyrra kom út „Bruce Lee: The Master Collection“ og þar eru sömu myndirnar nema núna með 4K yfirhalningu og svo fær „Enter the Dragon“ að fljóta með (nema hvað að hún virðist vera í venjulegri 1080P upplausn eins og hefðbundinn Blu-ray diskur er). Sama aukaefnið, sömu kápurnar en myndgæðin vafalaust betri.

Sem stendur hefur frægasta mynd Bruce, „Enter the Dragon“, einungis hlotið tvær Blu-ray útgáfur.

Spurning hvað kemur svo árið 2018 til að létta buddurnar hjá Bruce Lee áhangendum enn frekar.