Oh Boy! Quantum Leap á Blu

Margir kannast við Sam Beckett og hans eilífa kapphlaup við að komast heim. Brátt verður hægt að njóta ferðalags hans í háskerpu en þáttaröðin „Quantum Leap“ (1989-1993) verður gefin út á Blu-ray 7. febrúar næstkomandi.

ql2

Beckett (Scott Bakula) er bráðgáfaður vísindamaður sem festist í fortíðinni þökk sé tilraunastarfsemi hans með tímaflakk. Dag einn hverfur hann einfaldlega og rankar við sér sem einhver allt annar. Heilmynd birtist honum í formi Al (Dean Stockwell) og verður hann samferðamaður Sam í vissum skilningi og leiðbeinandi. Sam ferðast um tímann og réttir hluti sem fóru úrskeiðis upprunanlega og kemur lífi þess sem hann er fastur í eða einhvers nákomins í góðan farveg. Eftir að ætlunarverki hans lýkur hverfur hann og birtist aftur sem einhver annar. Eftirminnilegt var það að hver þáttur hófst og endaði með línunni; „Oh boy!“

ql8

Það var siður á mínu heimili um tíma hjá okkur bræðrunum að panta eina Jón Bakan og planta okkur í sófann á föstudagskvöldi og sjá hvar Sam myndi nú birtast. Oftast var hann einstaklingur af sama kyni en stundum kona. Á tímaflakki sínu skaut hann upp kollinum á mörgum þekktum tímabilum í sögu Bandaríkjanna og stundum sem manneskjur sem gætu haft mikil áhrif á stóra sögulega viðburði. Besta dæmið er þegar hann birtist sem Lee Harvey Oswald stuttu áður en John F. Kennedy var skotinn til bana.

ql3

Þættirnir þóttu vel heppnaðir og voru talsvert vinsælir á heimsvísu en ákveðið var að taka þá af dagskrá á fimmtu seríu. Lokaþátturinn fær viðeigandi endi á ýmsan máta en greinilegt er að möguleikinn á framhaldi var haldið opnum. Af og til hefur verið rætt um mögulega framhaldsseríu eða kvikmynd um þá Sam og Al en ekkert hefur verið frágengið í þeim efnum.

ql4

Alls urðu þættirnir 95 talsins. „Quantum Leap“ hefur verið gefið út á DVD en talsvert af upprunanlegu tónlistinni fékkst ekki leyfi fyrir og því var hún öðruvísi á mynddiskunum. Væntanlegi Blu-ray pakkinn frá Mill Creek í Bandaríkjunum mun innihalda mestmegnis upprunanlegu tónlistina en greinilega ekki alla.

ql1

Þessi pakki er eðal fyrir nostalgíu-fíklana. Enginn Jón Bakan lengur og Stöð 2 ræður ekki dagskránni en spurning um að hóa í brósa, panta eina böku og ferðast um tímann með Sam og Al.