Nýtt í bíó – Manchester By the Sea

Kvikmyndin Manchester by the Sea verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 24. febrúar, í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

Myndin,  sem fékk á dögunum sex tilnefningar til Óskarsverðlauna, segir frá því þegar bróðir Lees Chandler deyr og hann er beðinn um að taka að sér son hans, Patrick. Þá ósk á Lee afar erfitt með að uppfylla. Hann hefur í kjölfar skelfilegs atburðar og persónulegs áfalls nánast dregið sig í hlé frá umheiminum. Þegar hann stendur skyndilega frammi fyrir beiðni um ábyrgð sem hann getur hvorki hafnað né höndlað má segja að hann sé neyddur til að endurmeta allt sitt.

Í tilkynningu frá Senu segir að myndin sé sannkallað snilldarverk og án nokkurs vafa ein af bestu myndum ársins 2016.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

 

Leikstjórn: Kenneth Lonergan

Helstu leikarar: Casey Affleck, Michelle Williams og Kyle Chandler

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Þótt leikstjórinn Kenneth Lonergan sé einn skrifaður fyrir handriti myndarinnar er hugmyndin að grunnsögunni komin frá John Krasinski sem bar hana undir Matt Damon árið 2011. Matt leist svo vel á að hann bað Kenneth Lonergan að skrifa handritið og hugðist upphaflega bæði leikstýra myndinni, framleiða hana og leika
aðalhlutverkið sjálfur. Vegna þess að Kenneth var upptekinn við annað fór verkið á bið og þegar hann loksins lauk við handritið hafði Matt ekki lengur tíma fyrir annað en framleiðsluna. Hann lagði því til að Kenneth myndi sjálfur leikstýra myndinni og fékk æskuvin sinn Casey Affleck til að taka að sér aðalhlutverkið.

-Manchester By the Sea hefur fengið fimm stjörnu dóma hjá flestum virtustu kvikmyndagagnrýnendunum og er samtals með 9,6 í einkunn á Metacritic. Betra verður það varla. Myndin var enn fremur tilnefnd til fimm Golden Globe-verðlauna (og Casey Affleck hlaut þau fyrir besta leik í aðalhlutverki) og er nú tilnefnd til sex Óskarsverðlauna, þ.e. fyrir handritið, leikstjórnina, leik þeirra Caseys Affleck, Michelle Williams og Lucasar Hedges, og sem besta mynd ársins. Hún er einnig tilnefnd til fimm BAFTA-verðlauna. Þetta er mynd sem allir ættu að sjá í bíó