Singer leikstýrir X-Men prufuþætti fyrir sjónvarp

Bryan singerLeikstjórinn Bryan Singer hefur skrifað undir samning um að leikstýra prufuþætti af nýjum X-Men sjónvarpsþáttum fyrir Fox sjónvarpsstöðina. Þættirnir eru enn án titils.

Þátturinn mun fjalla um tvo venjulega foreldra sem komast að því að börnin þeirra eru með stökkbreytta eiginleika. Fjölskyldan neyðist til að flýja fulltrúa óvinveittra stjórnvalda, og gengur til liðs við neðanjarðarhreyfingu stökkbreyttra og þarf að berjast fyrir lífi sínu.

Þetta er annað Marvel verkefnið sem er í vinnslu fyrir Fox, en hitt er Legion, sem er samframleiðsla Marvel TV og FX productions.  Fyrsti þáttur Legion verður sýndur 8. febrúar nk.

Legion tengist X-Men heiminum og fjallar um David Haller, stökkbreyttan sem greindur er með geðklofa á unga aldri.

Nýju X-Men þættirnir myndu verða enn tengdari X-Men heiminum en Legion.

Singer er enginn nýgræðingur þegar kemur að X-Men; hann leikstýrði X-Men árið 2000, X2: X-Men United árið 2003  og X-Men: Days of Future Past árið 2014.