Óupplýst morð á röppurum rannsökuð

Johnny Depp og Forest Whitaker hafa skrifað undir samning um að leika í rappmyndinni LAbyrinth. Eins og hástafirnir í upphafi titilsins gefa til kynna þá er hér ekki á ferðinni framhald af David Bowie myndinni Labyrinth, heldur er um að ræða kvikmyndagerð á bók Randall Sullivan sem fjallar um rannsóknina á morðum rapptónlistarmannanna Tupac Shakur og Notorious BIG.

depp-whitaker

Depp mun leika LAPD rannsóknarlögreglumann sem má muna sinn fífil fegurri, og er pirraður á því hve hægt gengur að leysa morðmálin. Whitaker leikur blaðamann sem leggur Depp lið í rannsókninni. Báðir þurfa að sanna sig, og báðir átta sig á því að lögreglan er líklega ekki á þeirra bandi …

Brad Furman ( The Infiltrator ) leikstýrir, en stefnt er að frumsýningu á næsta ári, 2017.

Whitaker getum við barið augum þessa dagana í Arrival, þar sem hann leikur hershöfðingja sem stýrir rannsókn á komu geimskipa til Jarðarinnar. Næst sjáum við hann svo um Jólin í Rogue One: A Star Wars Story. 

Depp sjáum við næst í Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales ( heitir Pirates of the Caribbean: Salazar´s Revenge í Bretlandi ) þann 26. maí nk.

Hann kemur einnig lítillega við sögu í Fantastic Beasts And Where To Find Them, sem kom í bíó í dag.