Nakin Lulu Sólveigar slær í gegn í Frakklandi

Mynd kvikmyndaleikstjórans íslenska, Sólveigar Anspach, Lulu Femme Nue, eða Nakin Lulu, er að slá rækilega í gegn í Frakklandi þessa dagana.

sólveig anspach

Myndin hefur verið í 2-3 sæti yfir mest sóttu kvikmyndir í landinu undanfarna daga og skákar þar mörgum vinsælum myndum sem eru að keppa um Óskarsverðlaunin, en stutt er síðan sýningar á myndinni hófust í borginni.

Sem dæmi þá sáu 18 þúsund manns myndina í Frakklandi á fyrsta sýningardegi og myndin fór rakleitt í annað sæti aðsóknarlistans í landinu, næst á eftir verðlaunamyndinni 12 Years a Slave. Myndin var ofar á lista en 18 aðrar nýjar myndir sem frumsýndar voru þann sama dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Sólveigu þá er útlit fyrir að 100.000 manns muni sjá myndina á fyrstu viku í sýningum.

Myndin var sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, síðastliðið haust.

Í myndinni segir frá móðurinni Lulu sem ákveður í gráma hversdagsleikans að láta sig hverfa á braut nýrra ævintýra án þess að láta kóng né prest vita.

Í kjölfar þess að starfsviðtal fer á versta veg ákveður hún  að yfirgefa eiginmann sinn og þrjú börn. Að vera slík ævintýrakona er hins vegar hægara sagt en gert. Á vegi varkáru hetjunnar okkar verður m.a. fyrrverandi glæpamaður sem nýtur verndar bróður síns, gömul kona sem drepleiðist og starfsmaður sem er áreittur af yfirmanni sínum. Óvæntur ástarfundur, huggun kvenlegrar nándar og samúð á röngum stað mun hjálpa Lulu að finna gamla kunningjakonu sem hún hefur ekki heyrt í lengi: hana sjálfa.

Le Monde birti í liðinni viku viðtal við Sólveigu og umfjöllun um myndina.

Smelltu hér til að sjá viðtalið við Sólveigu og hér til að lesa umfjöllunina um myndina.