Flugmaður deyr í tökum á Tom Cruise mynd

Tveir eru látnir og sá þriðji alvarlega slasaður eftir flugslys sem varð á tökustað nýjustu bíómyndar stórleikarans Tom Cruise, Mena.

jack-reacher-tom-cruise_0

Atvikið átti sér stað í gær í Medellin í Kólumbíu.

Cruise, sem sjálfur er lærður flugmaður, er ekki sagður hafa verið um borð. Þeir sem létust eru sagðir vera bandaríski flugmaðurinn Alan David Purwin og Kólumbíumaðurinn Carlos Berl. Annar bandarískur flugmaður, Jimmy Lee Garind, er alvarlega slasaður, og er nú á spítala í Medellin.

Purwin var samkvæmt Variety kvikmyndavefnum, stofnandi og forstjóri fyrirtækisins Helinet Technologies frá Los Angeles, sem útvegar eftirlitsbúnað úr lofti fyrir lögreglu og opinberar stofnanir. Hann hefur áður unnið við kvikmyndir eins og Transformers, Pearl Harbor og Pirates of the Caribbean.

Nýlega var fjallað um Purwin í Varety þar sem rætt var um kvikmyndatökur úr lofti. Purwin talaði þar um hvernig hann reyndi að minnka áhættu við tökurnar, þegar unnið væri við hættulegar aðstæður.

Yfirvöld á staðnum telja að slæmt veður hafi valdið því að hin tveggja hreyfla Aerostar hafi hrapað við Alto de la Clarita fjöllin.

Mena, sem er leikstýrt af Doug Liman, hefur verið í tökum í Kolombíu síðan seint í ágúst. Cruise leikur Barry Seal í myndinni, bandarískan flugmann sem vann fyrir kólumbíska eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar, áður en hann varð síðan njósnari fyrir fíkniefnalögregluna. Aðrir helstu leikarar eru Jesse Plemons, Domhnall Gleeson, Sarah Wright og Caleb Landry Jones.