Lundgren verður leikskólalögga

Tímaritið Entertainment Weekly greinir frá því að sænski leikarinn og bardagalistamaðurinn Dolph Lundgren leiki aðalhlutverkið í Kindergarten Cop 2, og feti þannig í fótspor félaga síns Arnold Schwarzenegger, sem lék aðalhlutverkið í fyrstu myndinni. Sagt er frá því jafnframt að myndinni sé ætlað að fara beint á DVD/VOD, án viðkomu í bíóhúsum.

dolph

 

Schwarzenegger og Lundgren léku saman síðast í The Expendables frá árinu 2010 og Lundgren hefur í gegnum tíðina leikið harðjaxla í ýmsum bíómyndum, þar á meðal hlutverk Gunnar Jensen í Expendables, og hnefaleikamanninn Ivan Drago í Rocky IV. Manly Movie sagði fyrst fréttir af málinu og birti mynd af Lundgren á tökustað í Vancouver í Kanada.

Don Michael Paul (Jarhead 2: Field of Fire) leikstýrir.

Samkvæmt vefsíðunni The Wrap, þá mun Lundgren ekki leika hlutverk rannsóknarlögreglumannsins John Kimble, sem Schwarzenegger lék í mynd Ivan Reitman frá árinu 1990.

Hann leikur samt löggu sem, rétt eins og Kimble, fer í gervi leikskólakennara, til að reyna að finna týndan USB lykil, sem tengist vitnaverndaráætluninni.