Risar éta menn í Attack on Titan – Stikla!

Leikin bíómynd er nú á leiðinni eftir manga teiknimyndasögum Hajime Isayama, Attack on Titan, en sögurnar hafa notið mikilla vinsælda síðan þær komu fyrst á sjónarsviðið árið 2009. Búið er að gera teiknimyndir fyrir sjónvarp eftir bókunum, nokkra tölvuleiki ofl.

Attack-on-Titan-live-action

Sagan gerist þegar mannkynið er við það að verða þurrkað út af yfirborði jarðar, af risum sem kallast Titans, sem virðast birtast út úr buskanum, og ráfa um Jörðina í leit að mönnum til éta.

Enginn veit hvað risarnir ætla sér, og í fyrstu virðist sem útilokað sé að drepa þá eða eiga við þá samskipti. Þær fáu hræður sem enn eru eftirlifandi á Jörðinni af mannkyninu, búa á bakvið stóra varnarveggi. Sagan í myndinni fjallar um ungan mann að nafni Eren, sem gengur til liðs við Survey Cops, herdeild sem ætlar sér að drepa Titan risana, eftir að hafa horft upp á dauða móður sinnar í einni árás risanna á þorpið hans.

Leikarar í myndinni eru allir japanskir og áætlað er að sýna myndina í nokkrum bíóhúsum í Bandaríkjunum.

Búið er að gera stiklu með enskum texta og hana má sjá hér að neðan, en eins og sést í stiklunni eru risarnir frekar óhugnanlegir, með dauð augu, og risastóra munna, sem henta vel til að háma í sig mannfólkið.

Eins og sést í stiklunni þá er einungis hægt að drepa risana með því að ná til svæðis á hnakka þeirra, sem er þeirra eini veiki hlekkur.

Búið er að heimsfrumsýna myndina í the Egyptian Theatre í Los Angeles, en myndin verður frumsýnd í Japan 1. ágúst nk.

Strax 19. september er svo von á annarri myndinni; Attack of Titan: End of the World.