Svampur Sveinsson heldur toppsætinu

svampurThe SpongeBob Movie: Sponge Out Of Water trónir enn á toppi vinsældarlista helgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins, aðra helgina í röð. Rúmlega 19.000 manns hafa séð myndina frá frumsýningardegi hér á landi.

Tíu ár eru liðin síðan fyrsta Svamps Sveinssonar kvikmyndin kom út, en hún hét einfaldlega SpongeBob SquarePants Movie. Svampur og hinn treggáfaði Pétur krossfiskur hafa alltaf notið mikilla vinsælda, bæði meðal barna og fullorðinna, en þættirnir voru fyrstu ódýru teiknimyndirnar frá Nickelodeon sem náðu viðlíka vinsældum.

Tom Kenny ljáir Svampi rödd sína á ný. Með önnur hlutverk fer m.a. Antonio Banderas, en hann leikur sjóræningjann Alameda Jack. Í myndinni eiga Svampur Sveinsson og félagar í höggi við þennan umrædda sjóræningja sem ætlar sér að ræna mikilvægu skjali sem er geymt í heimabæ þeirra á botni sjávar.

Í öðru sæti situr Jupiter Ascending, sem er nýjasta mynd Wachowski-systkinanna Andys og Lönu, en þau gerðu m.a. Matrix-myndirnar og myndirnar Bound og Cloud Atlas, og skrifuðu einnig handritið að V For Vendetta árið 2005.

Í þetta sinn færa þau okkur geimvísindasögu sem sögð er stórkostlega vel gerð og spennandi og um leið full af húmor og óvæntum skemmtilegheitum. Með aðalhlutverk fara Mila Kunis, Channing Tatum, Sean Bean og Eddie Redmayne.

Í þriðja sæti er myndin Paddington, en hún fjallar um ungan björn frá Perú sem hefur dálæti á Bretlandi. Hann ákveður að fara til Lundúna til að leita sér að nýju heimili, en hann áttar sig fljótlega á því að stórborgarlífið er ekki eins og hann ímyndaði sér. Hann kynnist góðhjartaðri fjölskyldu á Paddington-lestarstöðinni sem býður honum tímabundið athvarf. Svo virðist sem að gæfan hafi snúist honum í hag, allt þangað til að þessi sjaldgæfi björn fangar athygli uppstoppara sem vinnur á safni.

Screen Shot 2015-02-09 at 10.29.23 PM