Bósi og Viddi í fjórðu Toy Story myndinni

Í dag tilkynnti Pixar kvikmyndaverið, sem er í eigu Disney, að von væri á fjórðu Toy Story myndinni, eða Leikfangasögu, árið 2017, og að enginn annar en leikstjóri fyrstu og annarrar myndarinnar, John Lasseter myndi leikstýra á ný.

Buzz Lightyear from Toy Story 3

Í myndinni verður sagt frá nýjum kafla í lífi Vidda, Bósa ljósárs og leikfangamanngervinganna allra, eftir að þeir fengu nýjan eiganda í lok þriðju myndarinnar. Hugmyndin að fjórðu  myndinni í þessari vinsælustu teiknimyndaseríu allra tíma, kemur frá Pixar- og Toy Story mönnunum Lasseter, Andrew Stanton, Pete Docter og Lee Unkrich, sem leikstýrði mynd númer 3.

„Við elskum þessar persónur svo mikið; þær eru eins og fjölskyldan okkar,“ sagði Lasseter í yfirlýsingu. „Við viljum ekki gera neitt með þeim nema það sé jafngott eða betra en það sem á undan er gengið. Leikfangasaga 3 batt svo fallegan endahnút á samband Andy, Vidda og Bósa, þannig að það leið langur tími þar til við fórum að tala um að gera nýja mynd. En þegar Andrew, Pete, Lee og ég fengum þessa hugmynd, þá gat ég ekki hætt að hugsa um hana. Hún var svo spennandi, og ég vissi að ég yrði að gera þessa mynd – og að ég vildi leikstýra henni sjálfur.“

Myndin verður fyrsta mynd Lasseter sem leikstjóra síðan hann gerði Cars 2 árið 2011, en hann hefur einbeitt sér að stjórnunarstörfum fyrir Pixar síðan Disney keypti fyrirtækið árið 2006.