Stjarna frá tíunda áratugnum gjaldþrota

Gamanleikarinn Sinbad, sem var vinsæll á tíunda áratug síðustu aldar, er gjaldþrota. Þetta er í annað skiptið sem leikarinn verður gjaldþrota en hann lagði fram beiðni um gjaldþrotameðferð í fyrra skiptið árið 2009.

MSDJIAL FE016

Sinbad, sem heitir réttu nafni David Adkins, segist skulda 10.991.175 Bandaríkjadali, en á einungis 131.000 dali upp í skuldirnar.

Sinbad, sem er 56 ára gamall, og þekktur fyrir hlutverk sín í myndum eins og Houseguest og Jingle All the Way með Arnold Schwarzenegger, segist hafa farið rækilega yfir á kortinu, og skulda American Express 374.979 dali, Bank of America 32.199 dali og 2,3 milljónir til skattsins.

Að auki segist hann skulda skattinum 8,3 milljónir dala vegna áranna 1998 – 2006, auk þess sem hann skuldar skatta frá árinu 2009 – 2012.

Samkvæmt pappírum sem Sinbad hefur skilað inn þá þénar hann einungis 16 þúsund dali á mánuði, eða sem samsvarar tæpum tveimur milljónum íslenskra króna, og hefur ekki efni á að borga reikningana.

Upp í skuldirnar á hann þó nokkrar eignir, þar á meðal 2007 árgerð af BMW 750i, 2006 árgerð af VW Bjöllu, 2010 árgerð af Ford F150, 2010 árgerð af Lincoln Navigator, 5.000 dala virði af skrifstofubúnaði, og 200 eintök af „Sinbad’s Guide to Life“ sem hægt er að kaupa á Amazon fyrir 6,25 dali stykkið.

Í fyrra skiptið sem Sinbad óskaði eftir gjaldþrotaskiptum, þá var það ekki tekið til greina þar sem hann skilaði ekki réttum pappírum.