Heimsfrumsýning: Iron Man 3

Sambíóin heimsfrumsýna núna á miðvikudaginn 24. apríl fyrstu stórmynd ársins, Iron Man 3, níu dögum á undan frumsýningu í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að myndin sé að fá frábæra dóma og til að mynda þá sé hún með 8,7 í einkunn á IMDB kvikmyndavefnum bandaríska.

„Tony Stark mætir sínum erfiðasta andstæðingi til þessa í stórkostlegri þrívíddarmynd sem gefur þeim fyrri ekkert eftir í hasar, húmor og spennu,“ segir í tilkynningunni.

Sérstök miðnæturforsýning á Iron Man 3 verður aðfaranótt miðvikudagsins 24. apríl klukkan 00.15 í SAMbíóunum Egilshöll.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Það eru þau Robert Downey Jr., Gwyneth Paltrow, Ben Kingsley, Don Cheadle, Guy Pearce, Jon Favreau og Rebecca Hall sem fara með aðalhlutverkin í þriðju myndinni um Tony Stark eða Járnmanninn eins og hann kallast þegar hann er kominn í ofurhetjubúninginn sem hann smíðaði sjálfur.

Tony Stark hefur tekið lífinu frekar rólega og hugað að því sem er honum kærast. Nýr forseti er kominn til valda í landinu og vonandi eru friðartímar framundan.

En Tony vaknar af værum blundi þegar ráðist er á heimili hans með gríðaröflugum vopnum og allt er lagt í rúst. Litlu má muna að aðstoðarkona hans, Pepper Potts, týni lífi í árásinni og Tony einsetur sér þegar að hafa uppi á þeim sem ábyrgðina ber.

Það á hins vegar eftir að koma í ljós að þessi nýi andstæðingur er hættulegri og máttugri en allir aðrir sem Járnmaðurinn hefur þurft að glíma við til þessa …

 

Aðalhlutverk: Robert Downey Jr., Gwyneth Paltrow, Ben Kingsley, Don Cheadle, Guy Pearce, Jon Favreau og Rebecca Hall
Leikstjórn: Shane Black
Sýningarstaðir: Sambíóin Egilshöll, Álfabakka, Kringlunni, Keflavík, Akureyri, Laugarásbíó, Bíóhöllinn Akranesi, Ísafjarðarbíó og Króksbíó Sauðakróki
Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Leikstjóri Iron Man 3, Shane Black, vakti fyrst á sér verulega athygli árið 1987 þegar hann sendi frá sér handritið að metaðsóknarmyndinni Lethal Weapon. Í kjölfarið skrifaði hann Lethal Weapon 2, 3 og 4, ásamt handritum mynda eins og The Last Boy Scout, The Long Kiss Goodnight og Kiss Kiss Bang Bang. Sú síðastnefnda varð um leið fyrsta myndin sem hann leikstýrði sjálfur og skartaði einmitt líka Robert Downey Jr.