Tvær stuttar – Síðasti bærinn og Kennitölur

Tvær stuttar er nýr liður hjá okkur og kynnum við tvær ólíkar stuttmyndir í hverri viku fyrir lesendum. Við byrjuðum á því að sýna ykkur stuttmyndirnar Hotel Chevalier og Doodlebug í fyrsta þætti. Að þessu sinni ætlum við að kynna fyrir ykkur tvær íslenskar stuttmyndir í tilefni af íslenskri kvikmyndahelgi.

Fyrri myndin er eftir Rúnar Rúnarsson og heitir Síðasti bærinn. Myndin fjallar um bónda í fjarlægum dal sem býr á eina bænum sem ekki er farinn í eyði. Í dalnum reynir hann að viðhalda draumum sínum þrátt fyrir allar breytingarnar í sveitinni. Hann er orðinn ekkill og er við það að missa bæinn, sjálfstæðið og sjálfsvirðinguna.

Seinni myndin er útskriftarverkefni úr Kvikmyndaskóla Íslands og heitir Kennitölur. Leikstjóri og handritshöfundur er Hallur Örn Árnason. Myndin er í senn grín og ádeila og fjallar um skólabörn sem að neyðast til þess að taka ábyrgð á fjárhagslegum mistökum foreldra sinna.