Ný Grisham mynd á leiðinni

Hver man ekki eftir The Firm, The Client, Pelican Brief og Time to Kill, sem allt eru bíómyndir byggðar á sögum spennusagnarithöfundarins John Grisham.

Nú er von á nýrri mynd sem byggð verður á sögu eftir Grisham, en framleiðslufyrirtækin Fox 2000 og New Regency ætla í sameiningu að gera mynd eftir nýjustu bók rithöfundarins, The Racketeer.

Double Feature Films mun framleiða myndina og sænski leikstjórinn Daniel Espinosa mun leikstýra, en Espinosa leikstýrði Snabba Cash og Safe House ssem báðar vöktu mikla athygli og fengu góða aðsókn.

Espinosa mun einnig framleiða myndina í samstarfi við umboðsmann sinn og meðframleiðanda Shelley Browning.

Racketeer fjallar um dómara sem er myrtur í kofa við vatn og peningaskápurinn hans er tæmdur. Eini maðurinn sem veit um hvað málið snýst er fyrrum saksóknari sem situr í fangelsi sem vonast til að geta notað málið til að hjálpa sér að ná fram hefndum á fólkinu sem kom honum í fangelsi.

Bókin kom út í október 2012 og fyrsta prentun var 1,5 milljón eintök. Bókin fór beint í fyrsta sæti metsölulista New York Times og USA Today og hefur verið á þeim listum síðan.