Svalur skalli á rugluðum hraða

Mest hneykslandi uppgötvun mín þegar ég horfði á Safe, fyrir utan það hvað hún er suddalega góð, var sú að myndin er svo klikkaðslega hraðskreið að það liggur við að hún láti Transporter-myndirnar flæða eins og megnið af Stanley Kubrick-myndunum. Hún er alveg nett óróleg allan tímann – og þá meina ég ALLAN tímann – ásamt því að vera örugglega ofvirkasta Jason Statham-myndin síðan Crank. Sumir hrista örugglega hausinn og halda að það sé ekki hægt, en hins vegar var ekki margt annað í boði fyrir Crank þar sem hún var pappírsþunn og reyndi hún mestmegnis á hraðann með því að vera snarsturluð. Safe er aðeins öðruvísi; hún er plottdrifin og ævintýrin hér eru býsna jarðbundin miðað við þau sem Chev Chelios upplifði, en að meðaltali endist hver sena í varla mikið meira en mínútu, og endalaust er verið að flakka á milli staða.

Myndin er nokkurn veginn eins og týpískur harðhausaþriller ef öllu því yrði sleppt sem leyfir fólki yfirleitt að anda á milli sena, eins og atriði með tónlist eða einhvers konar sparlega notuðu dramakjaftæði. Hvert einasta atriði í Safe kemur sér strax beint að efninu, og þannig stýrist þetta plott best. Þessi hraði gerir einnig töffaraskapinn hjá Stattaranum ennþá meira töff vegna þess að hann hjólar í vondu kallana með slíkum rakettukrafti að maður glímir við það að sitja með lafandi kjaftinn og aulalegt bros á sama tíma. Þess vegna leit ég örugglega út eins og algjör fæðingarhálfviti þegar ég horfði á myndina. Inn við beinið er þetta nefnilega þessi hefðbundna Statham-ræma. Ein af þessum sem virðast stundum koma beint af einhverju færibandi. Þetta er hins vegar hefðbundin Statham-ræma eins og við myndum sjá hana ef tilraunaóður kvikmyndaskólanemi með athyglisbrest myndi sjóða hana saman, og þetta er átt við sem dúndrandi hrós.

Án gríns, orkan er gjörsamlega stanslaus hérna. Og líka stjórnlaus. Fyrst hélt ég að þessi taktur væri bara í fyrstu atriðum myndarinnar, og sennilega hélt ég það útaf því það eru flashback-senur. Svo hrekkur plottið í gang, og kemur í ljós að takturinn heldur áfram, og áfram. Ég var alltaf með það á bakvið eyrað á meðan myndinni stóð að hún ætti eftir að hægja á þessari fjúríus keyrslu, eins og gerist oft óhjákvæmilega í myndum sem spretta svona af stað á fyrstu mínútunni. Meira að segja Crank byrjaði að missa smávegis dampinn rétt undir lokin. Safe gerir það ekki. Rólegu senurnar endast kannski í mesta lagi nokkrar mínútur, og pásurnar eru fáar og með löngu millibili. Stundum þjáist myndin fyrir of hæper klippingarstíl, en lögð er þó talsvert meiri áherslu á myndatökuna og rammauppsetningu en í mörgu öðru sem Stattarinn leikur í. Það sést best á ansi öflugum skotbardaga í fyrri helmingnum, sem sýndur er allur frá afmörkuðu sjónarhorni úr bíl.

Hasarhetjan er í sínu besta formi hér, og þó þetta sé aðallega þessi stálharði Statham sem hittir alltaf best í mark, þá laumast inn smábrot af leikaranum sem sýnir trúðverðugar tilfinningar og kann að leika. En bara örlítið brot. Það kemur að vísu á óvart að myndin er ekkert að flýta sér að koma Statham í eitursvala gírinn, heldur tekur hún mjög ferska og kitlandi stefnu. Á fyrsta hálftímanum er maðurinn pollrólegur, enda tekur uppstillingin á söguþræðinum aðeins lengri tíma en maður heldur (án þess að nokkuð sé verið að tefja – það er fullt af upplýsingum sem þarf að dekka), en svo þegar slagsmálakunnáttan og reiðin brýst út, er ekki einasta ramma sóað. Safe er ein sú harðasta sem Statham hefur nokkurn tímann gert, og hún bætir skemmtilega upp fyrir ruslið sem Blitz var. Ég hef ekki hugmynd um hvað Hr. Skalli var að pæla þar.

Söguþráðurinn er fyrirsjáanlega heiladauður og kínverski barnaleikarinn í myndinni er ekki sá sterkasti þegar enskir frasar eru í flutningi, en handritið hefur fullt af hápunktum og óvæntum atvikum sem spila hressilega með væntingar áhorfandans. Myndin heldur örygginu allan tímann og veit vel hvað hún er og er að reyna að gera, en hún veit líka hvers konar mynd margir halda að hún sé. Fyrir mitt leyti hélt ég að hún myndi detta í formúlubundnari gírinn því lengra sem leið á hana, eða jafnvel breytast í enn eina örvæntingarfullu Léon-eftirhermuna. Það stefnir allt í slíkt í stutta stund en mér til óútskýranlega mikillar ánægju fékk ég eitthvað annað og miklu stílískara í staðinn.

Safe er hvorki Óskarsmynd né hundafóður. Hún er harðkjarna afþreying sem veit hvernig á að þjóna einum svalasta manninum í bransanum í dag og fullnægja þörfum aðdáenda hans og kvikmyndanörda líka. Myndin gætir þess að detta aldrei á sjálfsstýringu og sparar ekki ofbeldið eða fjörið þangað til hún klárast. Atburðarásin verður svo snælduvitlaus en myndin heldur samt alltaf andlitinu til að hún missi ekki hráa krimmatóninn. Að mínu mati er þetta ferskasta og skarpasta Statham-myndin síðan The Bank Job, og hún er alls ekki eins þurr og dæmigerð og sýnishornin segja.


(8/10)