Hugh Jackman er Vesalingur

Ástralski leikarinn Hugh Jackman er hvað þekktastur fyrir frammistöðu sína sem Wolverine í samnefndri mynd og X-Men myndunum. Jackman leikur aðalhlutverkið í væntanlegri mynd um Vesalingana, eða Les Misérables, sem er gerð eftir samnefndri franskri skáldsögu eftir Victor Hugo.

Það sem er hvað sérstakast við myndina er að hún er í raun gerð eftir söngleik sem er byggður á bókinni. Leikstjóri myndarinnar, Tom Hooper, hefur sagt í viðtölum að myndin verði einnig söngleikur. Þá verða leikararnir látnir syngja og komast ekki upp með neitt svindl (ímyndið ykkur Mamma Mia! í Vesalingagervi).

Í gær láku út myndir af Jackman í hlutverki sínu á tökustað, en í Les Misérables leikur hann Jean Valjean, ungan mann sem hefur verið á flótta frá laganna vörðum í 19 ár fyrir að stela brauði í heimalandi sínu til þess að fæða fjölskyldu sína.

Eins og sjá má á myndunum er Jackman ansi sjúskaður og orðið á götunni er að hann hafi grennt sig gríðarlega mikið fyrir hlutverkið.

Les Misérables verður ein af jólamyndunum í ár, en hún verður frumsýnd vestanhafs 14.desember. Aðrir leikarar í myndinni eru meðal annars Russell Crowe, Anne Hathaway, Helena Bonham Carter, Sacha Baron Cohen og Amanda Seyfried.

 

Stikk: