Green Hornet fær ekki framhald

Ofurhetjumyndin The Green Hornet með Seth Rogen í aðalhlutverki kom út í fyrra og hlaut sæmilegar viðtökur gagnrýnenda (Tommi gaf henni 7/10). Aðdáendum líkaði myndin þó aðeins betur og flykktist í kvikmyndahús vikurnar eftir að hún kom út. Myndin græddi um 250 milljónir dollara á heimsvísu, en kostnaður hennar nam 120 milljónum.

Einn framleiðenda myndarinnar, Neal H. Moritz, sagði í viðtali við Hollywood Reporter að þrátt fyrir að myndinni hafi gengið vel þá sé framhald ekki í bígerð. Ástæðan er einföld – myndin kostaði of mikinn pening.

,,Þrátt fyrir að við græddum 250 milljónir og aðdáendur og gagnrýnendur hafi fílað myndina þá kostaði hún allt of mikið. Við gerðum hana í L.A. og ákváðum að fara alla leið með hana í þrívídd. Ef við hefðum gert hana í fylki þar sem við hefðum fengið skattaafslátt og sleppt þrívíddinni þá væri staðan betri í dag.“ sagði Moritz.

 

Seth Rogen hefur nú þegar látið út úr sér að hann ætli ekki að taka þátt í framhaldsmynd og orðrómar hafa verið um þetta mál lengi. Nú lítur út fyrir að síðasti naglinn sé kominn í kistuna.

Persónulega finnst mér þetta fáránlegt. The Green Hornet græddi svipað mikið og hún kostaði og því finnst það ekki nógu góð rök að segja að myndin hafi kostað of mikið. Handritshöfundur The Green Hornet, Evan Goldberg, lét út úr sér í fyrra að framhaldsmynd væri að sjálfsögðu í myndinni, enda er venjulega ekki sett svona mikil orka í aðeins eina mynd ef áætlunin gerir ekki ráð fyrir framhaldsmyndum.