Ekki fullkomin en oft drepfyndin

Hvernig getur Muppets-mynd, sem er augljóslega gerð af Muppets-dýrkendum (handa Muppets-aðdáendum) verið nokkuð annað heldur en stanslaus orgía af gleði ef maður tilheyrir þeim hópi sem myndin er gerð fyrir? Í hreinskilni sagt, þá er ég algjör Muppets-hóra, eða var það að minnsta kosti. Ég hef séð alla þættina og allar myndirnar fáránlega oft nema þessar sem komu á eftir Muppet Treasure Island, því þær voru bara hreinlega lélegar. Í æsku horfði ég meira að segja oft á hið stórskrítna fyrirbæri sem hét Muppet Babies, sem voru teiknimyndir um yngri útgáfur helstu persónanna. Maður spyr sig auðvitað strax: Hver er tilgangurinn með Muppets-þáttum ef þeir eru teiknaðir??

En í hnotskurn þá hef ég elskað þessar stórskemmtilegu sokkabrúður síðan ég var alltof ungur til að geta gert grín að því að froskurinn Kermit, einhver elskulegasti karakter í sögu brúðufígúra, var með undarlegt blæti fyrir „stórum“ stelpum. Venjulega passa ég mig á því að gera miklar væntingar til bíómynda, eða í versta falli reyni ég að stilla þær eftir ákveðnu raunsæi, en ég var allavega fyrirfram mjög spenntur þegar ég sá að í fyrsta sinn í mjög langan tíma væri gerð Muppets-mynd frá fólki sem væri í rauninni annt um fyrirbærið, í staðinn fyrir þá sem vilja bara græða á vörumerkinu.

Álitið mitt á þessari mynd er dálítill grautur, og það segi ég eftir að hafa séð hana tvisvar sinnum. Ég elskaði (án djóks, ELSKAÐI) svona u.þ.b. 60% af henni. Restin var annaðhvort fín eða skítsæmileg. The Muppets er samt klárlega besta myndin í „seríunni“ ásamt sjóræningjamyndinni vanmetnu. Hún heldur ekki fullkomnum dampi, og það eru kaflar þar sem hún tapar áhuga manns pínulítið og ofgerir sumt. Á móti því eru hins vegar ýmis móment sem eru ekkert nema pjúra snilld og ábyggilega með því fyndnasta sem hefur sést frá Prúðuleikurunum, sem og undanfarið ár í bíómyndum. Það, í minni bók, er eitt besta hrósið sem ég get gefið myndinni. Þetta er greinilega myndin sem hún vill vera en stórum hluta af mér finnst eins og hún hefði getað verið betri, og miklu einstakari.

Þessi Muppets-mynd er skólabókadæmi um það að það nægir bara ekki fyrir aðstandendur að vera þráhyggjufullir aðdáendur efnisins. Það hjálpar vissulega alveg HELLING, og myndin fær að sjálfsögðu mörg stig fyrir umhyggjuna á bakvið framleiðsluna. Stærsti galli myndarinnar er samt sá að hún er ekki mikið meira en bara dæmigert ástarbréf frá nokkrum aðdáendum sínum, sem leggja talsvert mikið púður í það að sýna hvers vegna þeir elska (gömlu) Prúðuleikaranna, og hvers vegna þú ættir að gera það líka. Það þýðir semsagt að myndin er dálítið nostalgíurúnk sem vitnar endalaust í gamalt efni í stað þess að finna fleiri nýjar hugmyndir. Þær eru alveg til staðar, en þær eru oft vafðar utan um klisjur (jafnvel fyrir svona flippaða mynd) og fjölmarga „reference“ brandara, sem voru flestir fyndnari í sinni upprunalegu mynd. Aðdáendur eins og ég munu taka eftir þessu. Aðrir finna ekkert fyrir því.

Ég skil ekki alveg hvers vegna handritið er svona útkrotað í gömlum bröndurum, því þessi mynd á að höfða beint til Muppets-aðdáenda, og sem slíkur fór ég sjálfur að verða fljótlega þreyttur á þessu gamla og vildi fá meira hugmyndaríkt og brakandi ferskt. Kaldhæðnislega er það samt nostalgían sem gerir myndina örlítið betri á sumum stöðum. Til dæmis eru mörg söngatriðin auðgleymd nema þegar gömul, klassísk lög eru notuð, eins og hið ógleymanlega Rainbow Connection. Æskubarnið í mér grét næstum því gleðitárum á því augnabliki. Það er samt ekki hægt að kvarta undan tónlistarvalinu, og þeir sem komast ekki góðan fíling þegar We Built This City með Starship hrekkur í gang hljóta að vera hreyfihemlaðir eða heyrnarlausir. Kannski er ég bara svona sjúkur í ’80s-tónlist. Myndin er líka rosalega vel tekin upp og lítur miklu betur út heldur en nokkur önnur Muppets-mynd.

Það er ekki stök sena í allri myndinni sem fer ekki að hlutunum með mikilli hlýju. Handritshöfundarnir knúsa upprunalegu Muppet Show-þættina og fyrstu þrjár bíómyndirnar fast að sér eins og ekkert annað Prúðuleikaraefni sé til í heiminum (sem segir okkur að tilvísanir í ’90s-þættina Muppets Tonight eru sama og engar – því miður). Og sem gamall aðdáandi (en samt ekki svo gamall) tók ég eftir útpældu uppsetningu myndarinnar. Hún er í rauninni samansafn af sketsum, skemmti- og söngatriðum sem vefjast öll í kringum eitthvað sem líkist atburðarás. Síðan er þekktum leikurum skellt inn í fjörið með tuskudýrunum. Gömlu bíómyndirnar hafa einmitt alltaf fylgt þeim hefðum að hafa fáeinar stjörnur í forgrunni en síðan slatta – og þá meina ég SLATTA – af öðrum gestaleikurum sem skjóta upp kollinum. Engin spes ástæða, heldur er bara nýtt hvert tækifæri fyrir hverja frægu manneskju til að segja: „hey, sjáðu! Ég er í myndinni!“ Og oftast er það mjög fyndið (sérstaklega í söngatriðinu Man or Muppet) Aðstandendur gerðu heimavinnu sína varðandi þau aukahráefni sem virkuðu, og það sést.

Ég get ekki ímyndað mér annað en að Jason Segel sé sáttur. Nei, reyndar miklu meira en sáttur. Í skýjunum og rúmlega það væri réttara sagt. Allir sem sáu Forgetting Sarah Marshall (sem hann auðvitað skrifaði og lék í) tóku sennilega eftir ekki-svo-lúmska áhuganum hans á Prúðuleikurunum (hann söng meira að segja þemalagið í þeirri mynd). Segel er meira en aðdáandi. Hann deilir næstum því sömu þráhyggju gagnvart þessum persónum og ein af nýju aðalpersónum myndarinnar. Segel, sem annar handritshöfundurinn hér, hefur sennilega tekið á móti vinnu sinni álíka mikið fagnandi og ef Quentin Tarantino hefði fengið að gera spagettívestra með ungum Clint Eastwood og Ennio Morricone sem tónskáld. Segel sýnir svakalegt þakklæti og þaðan kemur þessi ljúfa sál sem The Muppets hefur. Myndin er kannski ekki eins hjartnæm og hún heldur, þótt ég efa að það sé mjög auðvelt að ná því takmarki með svipbrigðalausum brúðum, en hún reynir sitt besta og á mjög einlægan hátt.

Segel er hoppandi kátur út alla myndina þótt hann sé bara eins og hann er venjulega. Sem er reyndar gott. Svo er Amy Adams aftur kominn í Enchanted-gírinn þar sem hún fær að syngja, dansa og vera krúttlega yfirdrifin. En Adams er alltaf meiriháttar og þess vegna púllar hún svona rullur á alveg jafnsannfærandi hátt og þegar hún leikur í dramatískari myndum. Eini leikarinn sem er eftir, með eðlilegan skjátíma, er Chris Cooper. Hann leikur samt svo dæmigerðan karakter að það gengur ekki einu sinni að búa til satíru í kringum þá stereótýpu sem hann leikur, þótt það sé meira bara handritsgalli. Hann er samt ekkert svakalega fyndinn, en ég skal gefa honum það að litla „söngatriðið“ sem hann fær kom að mér eins og fljúgandi keilukúla í andlitið. Það var alltof steikt til að vera lélegt, en samt of vandræðalegt til að vera fyndið. Myndin er samt pökkuð af óvæntum glaðningum. Oftast jákvæðum.

Það er samt þessi nýi karaker, brúðan Walter, sem ég var bara ekkert voðalega hrifinn af. Hann er náttúrulega drifkraftur sögunnar og anda myndarinnar, en ég fékk bara heldur fljótt leið á honum. Hann var viðkunnanlegur en aldrei heillandi. Stóra atriðið hans gerði mjög lítið fyrir mig. Prúðuleikararnir sjálfir stóðu þó hiklaust fyrir sínu. Hörðustu aðdáendur taka að vísu eftir því að Miss Piggy og Fozzie hljóma ekki lengur eins og Frank Oz. Það gladdi mig samt hvað hún Svínka var óvenju þolanleg í myndinni. Venjulega fer hún rosalega í mig. Mér myndi svo líða kjánalega ef ég myndi ekki minnast á þá mögnuðu persónuörk sem Animal fær, og hún springur líka út í bestu senunni og fullkomnar hana.

En auðvitað er þessi mynd vel þess virði að sjá. Það þýðir varla að grandskoða söguna í The Muppets því hún skiptir eiginlega engu máli, og það sést best á því hversu oft er verið að rjúfa fjórða vegginn. Sem nostalgíubomba og brandaradrifin skemmtun gengur myndin klárlega upp, en ég segi það aftur að mér fannst Segel og félagar alveg hefðu mátt taka fleiri áhættur og hrista til í efninu sem þeim er svo annt um. Myndin er svo upptekin að því að þóknast öllu gamla góða að hún missir stundum tækifærið á því að bera sín eigin einkenni. Gat hún ekki gert bara bæði? Þá hefði hún verið miklu meira töfrandi, og eflaust hálfgert meistaraverk í mínum huga.

Kannski vildi ég aðeins meira af nýjungum vegna þess að ég hafði alltaf meira álit á Muppets Tonight-þáttunum heldur en fyrstu seríunum, enda voru þeir aðeins nær mínu kynslóðartímabili. Annars skil ég svosem tilganginn með því að gefa skít í nýlegra Muppets-efnið, en það er svo hægt sé að bæði virða og fagna því sem Jim Henson skapaði þegar hann var á lífi. Krakkar verða eflaust hrifnir af þessari mynd, en það eru eldri áhorfendurnir sem munu brosa miklu oftar, hlæja miklu oftar og fá almennt miklu meira út úr henni. Og þeir sem eru komnir á fínan aldur og ólust upp með Prúðuleikurunum, þeir munu fá gleðisprautu beint í sálina og öðlast allt aðra tengingu við sumar senur heldur en nýju kynslóðirnar.