Leikstjóri Twilight Zone fundinn


Við sögðum frá því fyrir tveimur vikum
að Warner Brothers væru að leita að leikstjóra fyrir væntanlega mynd byggða á sjónvarpsþáttunum klassísku, The Twilight Zone. Þá voru sagðir koma til greina Christopher Nolan (The Dark Knight), David Yates (Harry Potter 5 -8), Michael Bay (Transformers) og Rupert Wyatt (Rise of the Planet of the Apes), stuttu seinna bætist Alfonso Cuarón (Children of Men) í hópinn.

Það kemur undirrituðum ekki mikið á óvart að sá sem fenginn var til verksins er enginn þeirra. Þess í stað hefur Matt Reeves verið ráðinn í starfið Fyrir þá sem kannast ekki við nafnið gerði hann skrýmslamyndina Cloverfield, og svo vampíruendurgerðina Let Me In. Af hverju Reeves? Hann hefur sennilega verið talsvert ódýrari en þessi stærstu nöfn, ásamt því að ofangreindir leikstjórar hafa sennilega einfaldlega ekki haft áhuga. Reeves gæti passað vel við efnið, en fyrri myndir hans hafa ákveðna þematíska tengingu við þá dularfullu spennu sem einkennir The Twilight Zone.

Fyrir þá sem ekki vita er hér stutta útgáfan af sögu þáttanna: Þeir hófu göngu sína árið 1959 og gengu í fimm ár. Þættirnir voru ekki framhaldsþættir af hefðbundinni gerð, heldur var sýnd ný drungaleg saga í hverri viku, sem oft tengdist einhverju yfirnátturulegu, og innihélt oftar en ekki „tvist“ í endann. Smám saman hafa þættirnir öðlast költ status og ekki gleymst í áranna rás eins og svo margt annað. Tvisvar hafa verið framleiddar nýjar seríur byggðar á þeim, frá 1985-1989 og svo frá 2002-2003. Kvikmynd sem bar nafnið Twilight Zone: The Movie var gerð árið 1983, og í henni voru fjórar mismunandi sögur kynntar til leiks, hver eftir sinn leikstjórann. Það voru ekki síðri nöfn sem komu að þeirri mynd; Steven Spielberg, John Landis, Joe Dante og George Miller. Myndin sem nú er verið að vinna að verður þó aðeins ein saga, eftir einn leikstjóra.

Matt Reeves hefur verið með nokkrar myndir á teikniborðinu sem hann þarf væntanlega að fresta, This Dark Endeavor (ein af fjölmörgum Frankenstein myndum í vinnslu), geimverumyndina 8 o´clock in the Morning, sem verður byggð á sömu smásögu og Carpenter klassíkin They Live frá 1988, og Zombie myndina The Passage, svo ekki sé minnst á Cloverfield 2, sem okkur hefur verið lofað. Allt eru þetta hugmyndir sem þannig lagað hefðu getað verið notaðar í The Twilight Zone þáttunum – ekki er þó búist við að nein af þessum hugmyndum verði grunnurinn að myndinni.

Það sem við vitum um myndina er að Jason Rothenberg skrifaði handrit sem er lýst sem „stórri scifi hasarmynd, með einni frístandandi sögu sem tengist upprunalegu þáttunum þannig að hún vekur þessa kunnuglegu hrollvekjandi tilfinningu“. En af hverju að nota Twilight Zone nafnið þegar að í rauninni er engin tenging? Ekkert annað en markaðssetning.