11 11 11 kemur 11 nóvember 2011

Saw leikstjórinn Darren Lynn Bousman hefur ákveðið að taka að sér það verkefni að leikstýra spennumynd sem ber heitið 11 11 11 og verður frumsýnd föstudaginn 11. nóvember árið 2011, þ.e. 11.11.11.

Myndin á að vera meira í ætt við myndir eins og Signs eða The Strangers, heldur en Saw myndirnar.

Það var framleiðandinn Wayne Rice sem fékk Bousman í verkefnið, en Rice hefur gert myndir eins og Valentine´s Day og Dude, Where is my Car og Suicide Kings. Rice segir í frétt frá Hollywood Reporter að þegar hann sá að 11. nóvember á næsta ári hitti á föstudag, hafi hann umsvifalaust hugsað sér að þarna yrði hann að frumsýna mynd með þessu nafni.

Bousman ætlar að passa sig á því að gera ekki talnaspekimynd eins og The Number 23 með Jim Carrey, sem floppaði í miðasölunni. Það kom síðan Bousman skemmtilega á óvart að talan 11 er áberandi í hans eigin lífi, m.a. er hann fæddur þann 11. janúar árið 1979.

Bousman situr nú við skriftir en meginhugmyndin er að nota hin 11 hlið himins og hvernig klukkan 11:11 á ellefta degi ellefta mánaðar ársins, þá muni ellefta hlið himins opnast og eitthvað úr öðrum heimi mun koma niður á jörðina í 49 mínútur.

„Með fyrri myndum mínum, Saw og Repo, þá hef ég á ferli mínum einbeitt mér að því að hræða fólk, og ég vil gera það sama hér,“ segir Bousman.