Moore: Skyfall er best

Sir Roger George Moore, sem lék James Bond á árunum 1973 til 1985, er hæstánægður með nýjustu James Bond myndina, Skyfall, og Daniel Craig sem leikur James Bond í myndinni. „Að mínum dómi er þessi mynd sú besta, besta Bond myndin af þeim öllum – og Daniel Craig, ég er fullur aðdáunar á honum,“ sagði Moore í samtali við People tímaritið bandaríska.

Moore, sem er 85 ára gamall, segir tímaritinu einnig frá því hvernig það kom til að hann sjálfur var ráðinn í hlutverk njósnarans fræga. “ Eftir fjórðu Bond myndina [Thunderball], þá tilkynnti Sean [Connery] að hann væri að hætta, og ég þekkti framleiðendurna Harry Saltzman og Cubby Broccoli. Ég hafði hitt þá í fjárhættuspili, og við urðum vinir, af því að ég leyfði þeim að vinna. Þeir sögðu að þeir vildu gera eina Bond mynd með mér, og gera hana í Kambódíu, og ég meira og minna samþykkti þetta þarna á staðnum … og svo varð allt vitlaust í Kambódíu, og ekki varð meira úr því,“ sagði Moore, en þrátt fyrir það þá fékk Moore hlutverk Bond á endanum, og gerði myndir eins og The Spy Who Loved MeOctopussy, Live and Let Die og For Your Eyes Only.