Konur gera strípibúllumynd

Strípibúllur koma ósjaldan fyrir í bandarískum kvikmyndum, en nýja súludans- og strípibúllumyndin Hustlers, nálgast strípibúlluþemað frá aðeins öðru sjónarhorni, einkum vegna þess að aðstandendur eru aðallega konur. Fremst í flokki fer þar leikstjórinn Lorene Scafaria, en með henni er fríður en ólíkur flokkur kvenna sem fer með öll helstu aðalhlutverk.

Lopez og Wu bera saman bækur sínar.

Eins og segir á vef CBC News þá byrjar myndin á því að leik- og söngkonan Jennifer Lopez stígur á svið í einni strípibúllunni, og dansar munúðarfullan dans undir laginu Criminal eftir Fiona Apple. Lopez er klædd glitrandi G-streng, sem skilur lítið eftir fyrir ímyndunaraflið.

Eins og atriðinu er lýst á CBC vefnum þá er það vissulega kynþokkafullt, en býður einnig upp á annað sjónarhorn. Atriðið er einnig íþróttamannslegt, og sýnir skemmtikraft sem hefur fulla stjórn á líkama sínum, og nær athygli spenntra manna sem henda til hennar seðlum.

Þetta er þriðja kvikmynd Scafaria ( The Meddler, Seeking a Friend for the End of the World ), og fjallar eins og fyrr sagði um heim strípistaða, en þar eru djarfir dansarar aðal aðdráttaraflið, og oftar en ekki eru þær í erfiðri stöðu og þurfa að sætta sig við ýmislegt misjafnt. En í þessari mynd snúa konurnar við blaðinu og reyna að ná stjórn á eigin lífi og afkomu.

Myndin er lauslega byggð á grein í New York Magazine frá árinu 2015, sem fjallaði um hóp strípidansara, sem tóku ráðin í eigin hendur, og fóru að byrla auðugum Wall Street viðskiptavinum ólyfjan, til að tæma úr veskjum þeirra.

Scafaria segir í samtali við vefinn að það að segja söguna frá óvæntu sjónarhorni hafi heillað hana. „Mér finnst gaman að taka persónur sem eru kannski misskildar og reyna að sjá hvort að fólk geti fengið betri skilning á þeim,“ sagði leikstjórinn í Toronto í Kanada nú um helgina, en myndin var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni sem fram fer þar í borg um þessar mundir, TIFF.

„Ég fann fyrir þeirri ábyrgð að sýna þetta frá þeirra sjónarhorni, og hvað þær þurfa að ganga í gegnum.“

Scafari var upphaflega ráðin eingöngu til að skrifa handrit myndarinnar upp úr tímaritsgreininni eftir Jessica Pressler, því annar leikstjóri átti að vera bakvið tökuvélina, enginn annar en Martin Scorsese. En eftir ýmsa hiksta og hnökra og vangaveltur, þá hætti Annapurna Pictures við að framleiða kvikmyndina, og STX Films keypti réttinn. Í kjölfarið sagði Goodfellas, Casino og The Departed leikstjórinn sig frá verkinu, og Scafaria og hennar fólk sannfærðu peningafólkið um að hún væri rétta manneskjan til að taka við.

Góð blanda leikkvenna

Lykilhugmynd Scafaria eftir að hún hafði tekið við stjórnartaumunum var að fá ólíkan hóp leikkvenna í helstu hlutverkin. Þannig blandar hún saman stórstjörnum eins og Lopez og Constance Wu, við tónlistarkonur eins og Cardi B og Lizzo. Þá eru í hópnum leikkonan Trace Lysette, óperusöngkonan og súludansmærin Marcy Richardson og kanadíski uppistandarinn og strípidansmærin Jacqueline Frances, öðru nafni Jacq the Stripper.

Einnig eru í leikhópnum Julia Stiles, Keke Palmer, Lili Reinhart, Mercedes Ruehl og Madeline Brewer.

Wu segir að það hafi verið ánægjulegt að vinna í svo stórum hópi kvenna, og kveðst vilja gera meira af því sama, því menn eigi ekki að þurfa að lyfta brúnum þó gerðar séu myndir þar sem konur eru í öllum helstu hlutverkum, fyrir framan og aftan myndavélina.