Kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur fyrir margt löngu öðlast sess sem einn besti og vandvirkasti kvikmyndagerðarmaður sem kvikmyndasagan þekkir vel, enda hafa myndir hans á borð við Taxi Driver, King of Comedy, Goodfellas, Cape Fear, Raging Bull og Mean Streets allar notið mikilla vinsælda og hlotið fjölda Óskarsverðlauna. Casino er nýjasta mynd meistarans og eins og ætíð hefur hann fengið nokkra af bestu leikurum samtímans í aðalhlutverkin, Robert De Niro og Joe Pesci sem fara hér hreint á kostum eins og fyrri daginn "þeir léku einnig aðalhlutverkin í Goodfellas". Sharon Stone, hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir meistaralega túlkun sína á Ginger, og var ennfremur tilnefnd til óskarsverðlaunanna fyrir túlkun sína. Það er óþarfi að endurtaka hér öll þau lofsyrði sem fallið hafa á myndina, leikstjórnina og leikinn, en fullyrða má að hún sé ein af bestu myndum ársins 1995 og ein besta mynd Scorsese fyrr og síðar. Velkomin til Las Vegas árið 1973. Sam "Ace" Rothstein "De Niro" lifir þar lífinu sem leppur fyrir milljarða dala rekstur mafíunnar í spilavítum borgarinnar og hefur gott upp úr krafsinu sér til handa. Samt sem áður eru stjórarnir í mafíunni ekki fyllilega öruggir um fjárfestingar sínar. Það virðist því vera snjall leikur að senda æskuvin Sams, Nicky Santoro "Pesci" til liðs við hann því þeir Sam og Nicky vega hvorn annan upp: Hugvit Sams og valdbeiting Nickys er öflug blanda sem fátt getur staðist. Fátt, segjum við, því þegar kynbomban Ginger McKenna kemur til skjalanna, fer heldur betur að hitna í kolunum ... Þessi grípandi sannsögulega mynd inniheldur enn fremur frábæra tónlist og svimandi innsýn í yfirborðskenndan dýrðarljómann í lífi þeirra manna og kvenna sem leggja hreinlega allt sitt undir - peninga og líf - í einu teningakasti! Þetta er stórkostlegt meistarastykki sem hreint allir verða að sjá. Ég gef "CASINO" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni. Hún er einstaklega góð afþreying á góðri stund þótt löng sé. Alls ekki missa af henni
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei