Klikkað að fá hlutverk í Star Wars

Írinn Domhnall Gleeson segist enn vera að reyna að átta sig á að hafa landað stóru hlutverki í Star Wars Episode VII.

domhnall-gleeson-in-anna-karenina-4

„Ég er enn að reyna að átta mig á þessu. Þetta gerðist allt mjög snöggt,“ sagði Gleeson í viðtali við útvarpsþáttinn 2FM í Dublin. „Þetta gekk í gegn nánast deginum áður en ég var mættur í samlestur með Carrie Fisher, Harrison Ford og Mark Hamill. Þetta var klikkun en samt frábært.“

Gleeson vill ekkert gefa upp um hvaða hlutverk hann leikur en sumir aðdáendur Star Wars halda að hann leiki son Luke Skywalker. „Ég gæti ljóstrað upp söguþræði myndarinnar ef ég segi eitthvað. Það eru tvö ár í viðbót af þessu. Myndin kemur út í desember 2015 þannig að ég verð að halda mér saman þangað til.“

Á meðal fleiri leikara í myndinni eru John Boyega, Daisy Ridley, Adam Driver, Oscar Isaac, Andy Serkis og Max von Sydow.

Gleeson, sem er sonur leikarans Brendan Gleeson, lék Bill Weasley í tveimur Harry Potter-myndum. Hann hefur einnig leikið í Anna Karenina og Dredd.