Kingsman 2 komin í gang

Hin stórskemmtilega gaman- leyniþjónustu – spennumynd Kingsman: The Secret Service sló í gegn sl. vetur og því eru menn, eins og ekki óalgengt er í Hollywood, þegar svona vel gengur, byrjaðir að huga að framhaldi.

kingsman 2

Leikstjórinn, Matthew Vaughn, hefur staðfest þátttöku sína í framhaldsmynd og segir við Yahoo!  að hann sé nú þegar byrjaður að skrifa handrit myndarinnar.

„Góðu fréttirnar eru þær að ég er núna hérna í næsta húsi að skrifa,“ sagði Vaughn, „og ef ég held að ég nái að gera það nógu gott, þá munum við gera myndina. Fylgist með, við erum að reyna að gera okkar allra besta til að láta þetta verða að veruleika.“

„Ég er að reyna að hugsa um nýjar leiðir til að gera framhaldsmyndir, og það er snúið,“ hélt Vaughn áfram, án þess að vilja gefa meira upp um skrifin.

Áður hafði Vaughn nefnt möguleikann á að í framhaldsmyndinni kæmi við sögu bandarískt útibú Kingsman áætlunarinnar, en ómögulegt er að segja hvort að það verði endanleg niðurstaða.