Nolan er gamaldags

Tenet leikstjórinn Christopher Nolan er „mjög gamaldags“ í því hvaða aðferðum hann beitir til að komast hjá því að eitthvað leki út um söguþræði mynda sinna. Þetta segir leikarinn Kenneth Branagh í samtali við vefmiðilinn Collider, en Branagh fer með hlutverk í myndinni.

Branagh í hlutverki sínu í síðustu Nolan mynd; Dunkirk.

Stefnt er að frumsýningu stórmyndarinnar í næsta mánuði, en almennt er talið að það verði fyrsta stórmyndin sem frumsýnd verður eftir að farið var að slaka á hömlum eftir kórónuveirufaraldurinn.

En hvernig skildi Nolan fara að því að girða fyrir leka og „höskulda“ (spoiler) ?

„Það er eins og handaband,“ segir Branagh. „Ég skal segja þér hvernig ég fékk handritið í hendurnar: það var bankað að dyrum, ég opnaði hurðina og á þrepinu fyrir utan var alþjóðlegur kvikmyndaleikstjóri að nafni Chris Nolan.

„Hann hélt á umslagi og sagði, „Ég er hér að afhenda þér handritið“. Það verður ekki öllu persónulegra en þetta,“ sagði Branagh og bætti við: „Og svo spurði ég,“ hvernig verður framhaldið, munum við ræða þetta eitthvað?“ Og þá sagði Nolan, „eftir 24 stundir, herra minn, mun ég hringja í þig, og við munum ræða þetta nánar.“ Það var ekki flóknara en það.“

„Hann sagði líka, „Það væri flott ef við héldum þessu bara okkar á milli“ … enginn skrifar undir neitt. Þetta er handaband og traust.“

Þekktur sem Rússinn

Leyndin í sambandi við persónuna sem Branagh leikur er slík, að persónan er einungis þekkt sem „Rússi sem á í samtali við framtíðina.“

Og Branagh bætti við: „Þegar það koma nýjar útgáfur af handritinu, þá fer ég til aðstoðarframleiðandans, Andy [ Thompson], sem tekur af mér handritið sem ég er með, eða skiptir út blaðsíðum í því fyrir nýjar. En ég myndi aldrei hætta á að vera með handrit sem væri ekki harðlæst í töskunni minni.“