Leikstjórinn Kevin Smith lýsti nýverið yfir óánægju sinni með það að MPAA mat næstu mynd hans Zack and Miri Make a Porno ekki hæfa fólki undir 17 ára aldri, en MPAA eru þeir aðilar sem ákveða aldurstakmörkin á myndum í Bandaríkjunum og hafa gríðarleg áhrif á gróða og markaðssetningu mynda þar í land, en það eru Smáís sem taka sambærilegar ákvarðanir hér á landi.
Kevin Smith er þekktur fyrir svæsnar myndir og þá er það helst orðbragðið sem er í svæsnari kantinum, en hann er þekktur fyrir myndir eins og Clerks. og Clerks II, Chasing Amy, Mallrats og Jersey Girl. Hann heldur úti útvarpsþætti á netinu þar sem hann reykir gras með vinum sínum og þeir tala um allt milli himins og jarðar í heila klukkustund vikulega, en þátturinn hefur slegið í gegn m.a. á iTunes og er með mest niðurhöluðu hlaðvörpunum þar á bæ.
Kevin Smith áfrýjaði dóm þeirra með þeim rökum að þó svo að orðið ,,porno“ standi í nafni myndarinnar þá sé hér um gamanmynd að ræða, og þó svo að það sé einhver nekt og ósæmilegt orðalag til staðar í myndinni þá er það ekkert sem hefur ekki sést áður í R-Rated mynd. Dómurinn féll honum í hag og því fær myndin svokallaða R-einkunn, eða R-Rated, sem þýðir að hún er bönnuð innan 17 ára í Bandaríkjunum, nema í fylgd með fullorðnum.
Þetta orðalag ,,nema í fylgd með fullorðnum“ leyfir Kevin Smith og framleiðendum myndarinnar að gjörbreyta markaðsherferð sinni, en þetta þýðir að unglingaskararnir eiga auðveldara með að sjá hana í kvikmyndahúsum. Smáís mun ákveða aldurstakmark hennar hér á Íslandi, en ef þeir myndu fylgja þessari þá yrði hún bönnuð innan 16 eða 14.
Zack and Miri Make a Porno skartar þeim Seth Rogen og Elizabeth Banks í aðalhlutverkum en söguþráðurinn sést skýrt í titli myndarinnar. Hún verður frumsýnd í lok október í Bandaríkjunum, en ekki er búið að ákveða dagsetningu á Íslandi.

