Judd Apatow finnst erfitt að eldast…

This is 40, næsta mynd gamanleikstjórans Judd Apatow, var að fá nýja stiklu. Eins og segir í henni er myndin hálfgert framhald af Knocked Up frá 2007, þar sem Leslie Mann og Paul Rudd fara aftur með hlutverk þeirra Pete og Debbie, sem voru í stuðningshlutverkum í þeirri mynd. Nú eru þau orðin fertug og fjallar myndin um hvernig þau takast á við þá staðreynd. Auk þeirra snúa Jason Segel, Charlyne Yi og þær Iris og Maude Apatow (sem eru dætur Judd og Leslie) aftur í sín hlutverk, og Megan Fox, og þau Melissa McCarthy og Chris O’Dowd úr Bridesmaids bætast við í ný. Ekki lítur hinsvegar út fyrir að þau Seth Rogen og Katherine Heigl muni birtast í myndinni. En hér er allavega stiklan:

Er ég einn um það að hafa vonast eftir… einhverju fyndnara? Knocked Up fannst mér hitta akkúrat á rétta jafnvægið milli tilfinningavægis og skemmtanagildis, en þessi mynd virðist við fyrstu sín vera umtalsvert nær því að vera drama en gamanmynd. Ekki að það þurfi að vera slæmt. Af hverju það er gert svona mikið drama úr því að eldast er hinsvegar annað mál. Svo er líka aldrei að vita hversu góða mynd svona stikla gefur af loka afurðinni, sem við fáum að sjá í desember.  Hvað segja lesendur?