Blár og kenndur Skarsgård

Ný mynd úr framtíðartryllinum Mute í leikstjórn Duncan Jones var opinberuð af tímaritinu Empire í gær. Sænski leikarinn Alexander Skarsgård fer með aðalhlutverkið í myndinni ásamt Paul Rudd og Justin Theroux.

Skarsgård fékk nýverið Golden Globe-verðlaun fyrir leik sinn í þáttunum Big Little Lies sem voru sýndir á sjónvarpstöðinni HBO. Mute verður aftur á móti frumsýnd á streymiveitunni Netflix þann 23. febrúar næstkomandi.

Myndin gerist í Berlín eftir 40 ár og fjallar um Leo Beiler (Skarsgård), mállausan barþjón sem leitar stóru ástarinnar sinnar sem virðist hafa horfið sporlaust. Eina vísbendingin sem hann finnur um tilvist hennar er í gegnum bandaríska skurðlækna og leikur Rudd yfirmann þeirra.

Á þessari blátóna mynd sést leikarinn, í hlutverki sínu, ganga út af bar í borginni og virðist vera nokkuð kenndur ef dæma má út frá því hvernig hann ber sig.

Þrjár fleiri myndir hafa verið gefnar út og á einni þeirra sést Rudd í hlutverki sínu sem skurðlæknirinn Cactus Bill. Á annarri myndinni má sjá Theroux í hlutverki Duck Teddington. Á Þeirri þriðju er önnur mynd af Skarsgård í hlutverki sínu.