Bowie mynd komin skrefi framar?

Nú þegar vinsældir ævisögulegra kvikmynda um fræga tónlistarmenn eru miklar ( nú síðast kom Rocketman, myndin um breska rokktónlistarmanninn Elton John , í bíó, og í febrúar fékk Bohemian Rhapsody, myndin um bresku rokkhljómsveitina Queen, fern Óskarsverðlaun ) þá er ekki skrýtið að fleiri hugsi sér til hreyfings.

David Bowie í ævintýramyndinni Labyrinth.

Nú berast fregnir af því að kvikmyndaleikstjórinn Duncan Jones, 48 ára, sonur David Bowie, hafi í stuttri færslu á Twitter lagt blessun sína yfir mögulegan leikstjóra fyrir ævisögulega kvikmynd um föður hans.

Jones segist sjálfur ekki ætla að leikstýra slíkri mynd, en ef fantasíurithöfundurinn Neil Gaiman og kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Ramsey, myndu leiða saman hesta sína fyrir myndina, yrði hann sáttur.

Ramsey leikstýrði á síðasta ári hinni rómuðu Spiderman: Into the Spiderverse. Hann heyrði af tístinu frá Duncan og svaraði að bragði, „Hey, engin pressa .. Nei ..? „Ég er klár“.“

Neil svaraði einnig, og Duncan sömuleiðis og sagði í gríni: „Því hefur verið tíst ..“

Ef af þessu verður þá má slá því föstu að mikið verði um glys og glamúr, rétt eins og í hinum myndunum tveimur fyrrnefndu, enda skorti ekkert á búninga, andlitsmálningu og hárgeiðslu hjá Bowie, sérstaklega á fyrstu árunum.

Bowie, sem lést árið 2016 úr krabbameini, átti að baki 40 ára feril í tónlist, kvikmyndum og leikhúsi.

Síðasta plata hans, Lazarus, var gerð að leikriti, þar sem Michael C Hall fór með aðalhlutverkið.

Síðan tónlistargoðið lést hafa ýmsar hugmyndir verið á flugi um gerð kvikmyndar, en Duncan hefur hingað til ekkert gefið út á þær.

Skáldsögur Neil Gaiman hafa verið teknar upp fyrir sjónvarp, en þar tekst hið góða á við hið illa í ævintýraheimum.

Bók sem hann gerði með Terry Pratchett, Good Omens, varð að sjónvarpsmyndaseríu á Amazon Prime, með þekktum leikurum í aðalhlutverkum, meðal annars þeim David Tennant og Michael Sheen. Þá var American Gods, drungalegri ævintýraútgáfa af New vs Old Gods, upprunalega bók eftir Gaiman, auk þess sem hann bjó til persónur fyrir hina vinsælu sjónvarpsþætti Lucifer, sem er að sigla inn í sitt fimmta og síðasta tímabil í sjónvarpinu.