Rudd klár í slímið

Ant Man leikarinn Paul Rudd tilkynnti í gær að hann hefði verið ráðinn í næstu mynd um Draugabanana geðþekku, eða Ghostbusters.

Í myndbandi sem Rudd deildi á samfélagsmiðlum sagði hann: „Ég get ekki beðið eftir að ganga til liðs við Ghostbusters núna í haust. Í rauninni er ég að maka á mig slími akkúrat núna.“

Leikstjórinn Jason Reitman, sem er sonur Ivan Reitman sem leikstýrði tveimur fyrstu Ghostbusters myndunum, mun leikstýra nýju myndinni.

Aðrir leikarar eru upprunalegu draugabanarnir Bill Murray, Dan Aykroyd, Ernie Hudson og Sigourney Weaver, en einnig nýliðarnir Finn Wolfhard (Stranger Things), McKenna Grace (The Haunting Of Hill House) og Carrie Coon (The Leftovers).

Reitman var gagnrýndur fyrr á árinu eftir að svo virtist sem hann væri að gagnrýna síðustu Ghostbusters mynd, sem er með konum í hlutverkum draugabananna.

„Við erum að reyna hvað við getum til að fara aftur í gömlu uppskriftina og gera aðdáendum okkar til geðs,“ sagði hann á sínum tíma.

Leslie Jones, sem var ein leikkvennanna í Ghostbusters myndinni frá árinu 2016, bað Reitman að útskýra ummælin, sem hann og gerði. „Vá, kom þetta eitthvað bjagað út!“ sagði hann. „Ég er aðdáandi þeirra allra, þeirra Paul, Leslie, Kate, Melissa og Kristen, og hugrekkisins sem þurfti til að gera myndina. Þau stækkuðu draugabanaheiminn og gerðu frábæra kvikmynd!“

Kate McKinnon, Kristen Wiig og Melissa McCarthy léku einnig í þeirri mynd.

Lítið er vitað um söguþráð myndarinnar, en því hefur verið lýst að hún muni halda áfram þar sem frá var horfið í upprunalegu Ghostbusters 1, frá árinu 1984, og 2, frá 1989. Vinnuheitið er einmitt Ghostbusters 3.

Nýja Ghostbusters kvikmyndin verður frumsýnd 10. júlí á næsta ári, 2020.