Eins og kvikmyndir.is greindu frá í október 2011 var Joss Whedon snöggur að skjóta sína eigin útgáfu af leikriti Williams Shakespeare, Much Ado About Nothing, eftir að tökum lauk á The Avengers. Til þess fékk hann kunnugleg andlit úr sínum eigin verkum og verkefnið ber sannarlega mikinn vinabrag, nokkuð sem í annarra höndum hefði líklega aldrei orðið meira en stundargaman og einkaflipp. Fran Kranz (úr The Cabin in the Woods) sagði í viðtali við Huffington Post í fyrra að Whedon hafi einkar gaman af því að fá fólk til að leika Shakespeare heima hjá sér og að kvikmyndin hafi sprottið upp úr þeirri leikgleði. Hvort hún hafi átt að ganga svo langt að fara í alþjóðlega dreifingu var kannski ekki aðalmálið á sínum tíma, en síðan fréttir tóku að spyrjast út af myndinni hefur verið mikil pressa á Whedon að sýna hana. Much Ado About Nothing var skotin á tólf dögum í október 2011 og Whedon virðist hafa dútlað við að klára hana í rólegheitum síðan þá. Hún var frumsýnd á TIFF í september síðastliðnum og hefur hlotið góðar viðtökur. Ný stikla gengur nú um vefinn, en von er á myndinni í almenna dreifingu vestanhafs í sumar.
Pörun Whedons og Shakespeare kann að virka undarleg, en fyrir hvern þann sem hefur fallið fyrir lifandi og fögru tungumálinu sem einkennir höfundarverk Whedons ætti sambandið alls ekki að koma á óvart. Whedon býr yfir einkennandi stíl sérstaklega hvað varðar samtöl hjá persónum sínum og þegar vel tekst til hrífast áhorfendur gjarnan með og líta alfarið framhjá því hversu óraunverulega margar persónurnar kunna að hljóma, miðað við það sem gengur og gerist í raunverulegum samræðum. Persónur Whedons eru þannig séð mjög skrifaðar, díalógurinn dregur athygli að því að vera skáldskapur, á hátt sem minnir á köflum á leikrit frekar en hefðbundnar kvikmyndir, en Whedon tekst með sínum ákveðnu brögðum að láta það ganga upp þegar á heildina er litið. Þannig séð eru samræður í mynd eða þætti eftir Whedon ekki ósvipaðar mörgum samræðum hjá persónum Quentin Tarantinos, sem kemst líka upp með alls konar töffaraskap og stílbrögð án þess að það verði kvikmyndaupplifuninni til trafala. Báðir leikstjórar skapa sinn eigin samræðustíl sem hluta af þeirra eigin kvikmyndaheimi og á meðan áhorfendur ná að lifa sig inn í þann heim er fullkomlega eðlilegt að allir tali í töffaralínum, að allir séu sérfróðir um poppmenningu, að allir séu vel að máli farnir og eldsnöggir að segja eitthvað sniðugt. Að þessu leyti er Whedon því leikstjóri sem á eflaust auðvelt með að færa orð Shakespeare inn í nútímann án þess að það verði tilgerðarlegt eða stíft, því í höndum hans flæðir tungumál og texti í gegnum persónurnar á nánast óaðfinnanlegan hátt. Hvenær íslenskir áhorfendur fá að sjá og heyra afraksturinn á enn eftir að koma í ljós, en hér má sjá nýlega stiklu til að halda aðdáendum Whedons jafnt sem Shakespeare glóðvolgum í bili: